Dominc Cummings, aðal­ráð­gjafi Boris John­son, for­sætis­ráð­herra, segir ekkert at­huga­vert vera við 400 kíló­metra ferða­lagið sem hann lagðist í þegar ferða­bann var í gildi á Bret­landi.

„Hverjum er ekki sama hvernig þetta lítur út? Þetta er spurning um að gera það rétta í stöðunni,“ sagði Cummings við blaða­menn og bætti við að þeirra álit skipti ekki máli.

Út­göngu­bann hefur verið í gildi í Bret­landi vegna CO­VID-19 far­aldursins og hafa stjórn­völd brýnt fyrir fólki að halda sig heima við.

Aðal­ráð­gjafinn hefur verið harð­lega gagn­rýndur fyrir reglu­brotið, bæði af stjórnar­and­stöðunni og al­menningi. Víða heyrast raddir sem kalla eftir því að honum verði sagt upp starfi vegna ferða­lagsins.

Sýndu ein­kenni CO­VID-19 á ferða­laginu

Um­rætt ferða­lag átti sér stað í byrjun apríl þegar Cummings, eigin­kona hans og barn ferðuðust milli Lundúna og Dur­ham. Hjónin sýndu bæði ein­kenni CO­VID-19 þegar þau lögðu af stað.

Það hefur vakið sér­staka at­hygli að þau hafi tekið á­kvörðun um að leggja í slíka lang­ferð á sama tíma og for­sætis­ráð­herrann var lagður inn á sjúkra­hús.

For­sætis­ráðu­neytið sagði í til­kynningu þau hjónin ekki hafa gert neitt rangt, þau hafi að­eins vilja tryggja að barn þeirra fengi góða um­sjá ef for­eldrarnir skyldu veikjast al­var­lega. Systir hans og frænka hafi boðist til að að­stoða og því hafi þau viljað dvelja ná­lægt þeim ef þau skyldu þurfa á hjálp að halda. Slíkt væri í sam­ræmi við reglur um ferða- og út­göngu­bann.

Upp­sögn eða brott­rekstur það eina í stöðunni

Ste­ve White, yfir­lög­reglu­þjónn í Dur­ham, sagði ferða­lag aðal­ráð­gjafans hins vegar hafa verið „afar ó­skyn­sam­legt“ í ljósi þeirra fyrir­mæla sem stjórn­völd höfðu gefið.

Stjórnar­and­staðan virðist vera á sama máli og í­trekar að sömu reglur gildi um hann og al­menning í Bret­landi. Ian Black­ford, þing­maður skoska þjóðar­flokksins, sagði að­eins tvo val­kosti vera í stöðunni, annað hvort myndi Cummings segja upp eða hann yrði rekinn.

„Reglur um út­göngu­bann voru mjög skýrar; ef grunur liggur á um að þú eða ein­hver á þínu heimili sé með CO­VID-19 skal sam­stundis grípa til sjálfsein­angrunar og forðast það að yfir­gefa heimilið,“ sagði tals­maður verka­lýðs­flokksins.