Ted Cruz, öldunga­deildar­þing­maður Repúblikana fyrir Texas, sætir nú harðri gagn­rýni eftir að það kom í ljós að hann flúði með fjöl­skylduna sína til Cancún í Mexíkó, á sama tíma og milljónir íbúa Texas glímdu við raf­magns­leysi og vatns­skort í einu versta vetrar­veðri ríkisins í hundrað ár.

Myndir af Cruz og fjöl­skyldu hans á leið til Cancún á mið­viku­daginn fóru fljót­lega sem eldur í sinu á netinu og vöktu mikla reiði. Í yfir­lýsingu um málið sagði Cruz að hann hafði að­eins farið til að fylgja dætrum sínum og vinum þeirra og bætti við að hann myndi fljúga aftur til Texas á fimmtu­dag.

Segir ferðina hafa verið mistök

New York Times greinir aftur á móti frá því að ferðin hafi verið skipu­lögð í flýti þar eigin­kona Cruz, Heidi, sendi vinum og ná­grönnum skila­boð þar sem hún lagði til frí fram til sunnu­dags vegna kuldans. Ó­ljóst er hversu lengi Cruz ætlaði upp­runa­lega að vera í Mexíkó en hann hélt aftur til Texas í gær.

Cruz sendi út aðra yfir­lýsingu í gær þar sem hann sagði ferðina hafa verið mis­tök og að hann hafi strax farið að efast um ferðina um leið og hann gekk um borð vélarinnar til Cancún. Þá sagði hann að þau hafi farið til að róa dætur þeirra sem höfðu átt „erfiða viku.“

Margir kalla nú eftir því að Cruz segi af sér vegna málsins en hann mun sitja sem öldungadeildarþingmaður til ársins 2024. Ákveði hann að segja ekki af sér er ljóst að hann eigi erfitt verk fyrir höndum til að ná endurkjöri.

Á fjórða tug látnir

Í­búar Texas glíma nú við eitt versta vetrar­veður sem skollið hefur á í ríkinu í rúm hundrað ár en Joe Biden Banda­ríkja­for­seti sam­þykkti fyrr í vikunni að lýsa yfir neyðar­á­standi vegna veðursins. Á mörgum heimilum sprungu vatns­pípur vegna kuldans og var raf­magns­kerfi ríkisins nánast búið að hrynja.

Raf­magns­leysið og vatns­skortur hefur meðal annars gert það að verkum að spítalar hafa þurft að grípa til ör­þrifa­ráða en fjöl­margir hafa leitað á neyðar­mót­töku vegna veðursins. Spítalarnir hafa þannig þurft að flytja sjúk­linga á milli og for­gangs­raða með­ferðum en til að mynda er ekki hægt að taka sjúk­linga í skiljunar­með­ferð.

Alls hafa hátt í 40 manns látist vegna veðursins í Texas og öðrum ríkjum þar í kring, og hafa yfir­völd neyðst til að loka vegum víða. Raf­magn kom aftur á sums staðar í ríkinu í gær en enn er mikið verk fyrir höndum þegar kemur að vatns­skorti.