Co­við­spyrnan hyggst bjóða fram á Al­þingi í haust. Þetta stað­festir Jóhannes Lofts­son, tals­maður hreyfingarinnar, í sam­tali við Frétta­blaðið. Fram­boðið mun bera heitið Á­byrg Fram­tíð.

Co­við­­spyrnan er hópur efa­­semdar­­fólks um hætturnar af og til­­vist CO­VID-19 sjúk­­dómsins auk þess sem hópurinn hefur marg­í­trekað sett fram full­yrðingar um bólu­efni og bólu­­setningu sem erfitt getur verið að sann­reyna. Jóhannes hefur í­trekað gagn­rýnt sótt­varnar­að­gerðir stjórn­valda.

Hreyfingin hefur reglu­lega mót­mælt að­gerðum á Austur­velli, meðal annars undan­farnar vikur á meðan engar tak­markanir voru í gildi. Jóhannes segir fram­boðið munu leggja fram raun­hæfa leið til að enda „Co­vid­fárið.“

Fólk fái að ráð­stafa út­varps­gjaldinu

„Við erum að stofna flokkinn form­lega núna. Þetta hefur hlotið mjög miklar undir­tekir og að þróast mjög hratt,“ segir Jóhannes.

Hann segir flokkinn eiga að standa fyrir tvennt. „Við ætlum að enda Co­vid­fárið og læra að lifa með þessum veirum og hins­vegar erum við að tala um á­kveðið þema í allri okkar stefnu, sem er að draga úr á­byrgðar­lausu valdi alls­staðar, þannig að þeir sem hafi völd yfir fólki beri á­byrgð og viljum í auknum mæli að fólk fái vald yfir eigin lífi, sem það ber á­byrgð á.“

Að­spurður um hvernig flokkurinn hyggst gera það nefnir Jóhannes sem dæmi að flokkurinn vilji að fólk fái vald yfir því til hvaða fjöl­miðils út­varps­gjaldið sitt fer. „Það er eitt af okkar lykil­málum, því við höfum séð það hvernig hefur verið gengið að mál­frelsinu núna í Co­vid.“

Vilja að al­menningi bjóðist ó­viður­kennt lyf

Jóhannes segir þetta eitt af þremur skil­yrðum sem flokkurinn ætli að setja. Þá segir hann flokkinn vilja að allir sem greindir verði með CO­VID með PCR prófum verði með­höndlaðir með því sem hann kallar „snem­með­ferð.“

Hann segir þessari að­ferða­fræði beitt í Texas.„Þetta þýðir það að það þarf að leyfa lyf meðal annars eins og I­ver­merctin og sam­bæri­leg lyf og lækna fólk áður en það verður veikt.“

Lyfið, sem notað er við sníkju­­dýrum, hefur ekki verið sam­þykkt af lyfja­­stofnun hér­­lendis í með­­ferð gegn CO­VID-19, né heldur í Banda­­ríkjunum eða Evrópu. Á vef­­síðu Lyfja­­stofnunar kemur fram að ekki ætti að nota lyfið við eða gegn CO­VID-19 þar sem niður­­­staða um mat á á­vinningi og á­hættu liggur ekki fyrir.

Segir þar að nauð­­syn­­legt sé að endan­­legar niður­­­stöður úr klínískum rann­­sóknum liggi fyrir áður en hægt sé að full­yrða um öryggi lyfsins og verkun þess gegn CO­VID-19. Þá geti notkun lyfsins fylgt ýmsar auka­­­verkanir eins og út­brot, ó­­­gleði, upp­­­köst og maga­­verkir sem og bólgur í and­liti, út­limum og svimi og flog. Þá getur skyndi­­­leg lækkun blóð­­þrýstings fylgt notkun lyfsins, al­var­­leg út­brot í húð komið fram, sem og lifrar­skaði. Rann­­sóknir hafa einnig sýnt fækkun hvítra blóð­korna, og hækkandi gildi ýmissa efna í lifur.

Jóhannes Loftsson er talsmaður hreyfingarinnar sem er orðin að stjórnmálaflokki.
Fréttablaðið/Samsett

Sótt­varnar­að­gerðum verði hætt

Þá segir Jóhannes að flokkurinn muni beita sér fyrir því þvingandi alls­herjar­sótt­varnar­að­gerðum, eins og hann kallar þær, verði hætt. Segist hann samt sem áður vilja að við­kvæmustu hóparnir verði verndaðir.

Jóhannes segir að vísað verði í Barrington yfir­lýsinguna svo­kölluðu frá því í októ­ber síðast­liðnum, þar sem tugir fræði­manna sögðust telja að­gerðir stjórn­valda vegna CO­VID-19 ganga of langt. Fram­kvæmda­stjóri Al­þjóða­heil­brigðis­mála­stofnunarinnar sagði það sið­laust að leggja til að veirunni yrði leyft að leika lausum hala, þar sem margt væri ó­ljóst um lang­tíma­á­hrif sýkingar á ein­stak­linga.

„Þetta miðar að svo­kölluðu stýrðu hjarðó­næmi,“ út­skýrir Jóhannes. „Það verður lögð ofur­á­hersla á að vernda við­kvæmu hópana og þetta er ekki gert í dag,“ full­yrðir Jóhannes.

Þá leggur flokkurinn til að bólu­efnapassar innan­lands verði bannaðir sem og bólu­setningar á börnum. Þvert á það sem rann­sóknir og gögn vísinda­fólks benda til full­yrðir Jóhannes að bólu­efnin veiti enga vernd gegn veirunni sem veldur sjúk­dómnum. Þá vill flokkurinn fram fari gagn­sæ rann­sókn á því sem Jóhannes kallar „mögu­leg stjórnar­skrár­brot“ og meintan skaða sótt­varnar­að­gerða og bólu­efna.

„Það þýðir að ríkið muni beita sér fyrir því að réttar­kerfið muni úr­skurða um öll vafa­at­riði. Svo viljum við gegn­sæa rann­sókn um skaða sótt­varnar­að­gerða og skaða bólu­efna,“ segir Jóhannes. „Það þarf að fá þessar upp­lýsingar upp á borðið og við viljum fá að rýna þessi gögn og að þessar tölur verði gerðar opin­berar.“

Flokkurinn vinni ekki með hverjum sem er

Að síðustu segir Jóhannes að­spurður að vel gangi að raða fram­bjóð­endum á lista. „Það er ekkert mál. Við vorum þarna 70- 80 manns um helgina og hljótum að ná að manna lista,“ segir Jóhannes.

„Þetta eru þessi þrjú lof­orð, með út­varps­gjaldið, rann­sóknina og að menn hætti þessu fári, þetta eru þessi lof­orð sem eru ó­frá­víkjan­leg og við munum ekki vinna með neinum sem vill ekki sam­þykkja þau al­gjör­lega,“ segir hann. Jóhannes segist gera fast­lega ráð fyrir því að hann muni bjóða sig sjálfur fram.

„En við til­kynnum það ekki strax. Það kemur í ljós seinna hverjir verða,“ segir hann. Hann segist gera ráð fyrir að taka sæti í öðru hvoru Reykja­víkur­kjör­dæmanna.

Frá einum mótmælafunda Coviðspyrnunnar á Austurvelli frá því fyrr í sumar.
Fréttablaðið/Aðsend