Coviðspyrnan hyggst bjóða fram á Alþingi í haust. Þetta staðfestir Jóhannes Loftsson, talsmaður hreyfingarinnar, í samtali við Fréttablaðið. Framboðið mun bera heitið Ábyrg Framtíð.
Coviðspyrnan er hópur efasemdarfólks um hætturnar af og tilvist COVID-19 sjúkdómsins auk þess sem hópurinn hefur margítrekað sett fram fullyrðingar um bóluefni og bólusetningu sem erfitt getur verið að sannreyna. Jóhannes hefur ítrekað gagnrýnt sóttvarnaraðgerðir stjórnvalda.
Hreyfingin hefur reglulega mótmælt aðgerðum á Austurvelli, meðal annars undanfarnar vikur á meðan engar takmarkanir voru í gildi. Jóhannes segir framboðið munu leggja fram raunhæfa leið til að enda „Covidfárið.“
Fólk fái að ráðstafa útvarpsgjaldinu
„Við erum að stofna flokkinn formlega núna. Þetta hefur hlotið mjög miklar undirtekir og að þróast mjög hratt,“ segir Jóhannes.
Hann segir flokkinn eiga að standa fyrir tvennt. „Við ætlum að enda Covidfárið og læra að lifa með þessum veirum og hinsvegar erum við að tala um ákveðið þema í allri okkar stefnu, sem er að draga úr ábyrgðarlausu valdi allsstaðar, þannig að þeir sem hafi völd yfir fólki beri ábyrgð og viljum í auknum mæli að fólk fái vald yfir eigin lífi, sem það ber ábyrgð á.“
Aðspurður um hvernig flokkurinn hyggst gera það nefnir Jóhannes sem dæmi að flokkurinn vilji að fólk fái vald yfir því til hvaða fjölmiðils útvarpsgjaldið sitt fer. „Það er eitt af okkar lykilmálum, því við höfum séð það hvernig hefur verið gengið að málfrelsinu núna í Covid.“
Vilja að almenningi bjóðist óviðurkennt lyf
Jóhannes segir þetta eitt af þremur skilyrðum sem flokkurinn ætli að setja. Þá segir hann flokkinn vilja að allir sem greindir verði með COVID með PCR prófum verði meðhöndlaðir með því sem hann kallar „snemmeðferð.“
Hann segir þessari aðferðafræði beitt í Texas.„Þetta þýðir það að það þarf að leyfa lyf meðal annars eins og Ivermerctin og sambærileg lyf og lækna fólk áður en það verður veikt.“
Lyfið, sem notað er við sníkjudýrum, hefur ekki verið samþykkt af lyfjastofnun hérlendis í meðferð gegn COVID-19, né heldur í Bandaríkjunum eða Evrópu. Á vefsíðu Lyfjastofnunar kemur fram að ekki ætti að nota lyfið við eða gegn COVID-19 þar sem niðurstaða um mat á ávinningi og áhættu liggur ekki fyrir.
Segir þar að nauðsynlegt sé að endanlegar niðurstöður úr klínískum rannsóknum liggi fyrir áður en hægt sé að fullyrða um öryggi lyfsins og verkun þess gegn COVID-19. Þá geti notkun lyfsins fylgt ýmsar aukaverkanir eins og útbrot, ógleði, uppköst og magaverkir sem og bólgur í andliti, útlimum og svimi og flog. Þá getur skyndileg lækkun blóðþrýstings fylgt notkun lyfsins, alvarleg útbrot í húð komið fram, sem og lifrarskaði. Rannsóknir hafa einnig sýnt fækkun hvítra blóðkorna, og hækkandi gildi ýmissa efna í lifur.

Sóttvarnaraðgerðum verði hætt
Þá segir Jóhannes að flokkurinn muni beita sér fyrir því þvingandi allsherjarsóttvarnaraðgerðum, eins og hann kallar þær, verði hætt. Segist hann samt sem áður vilja að viðkvæmustu hóparnir verði verndaðir.
Jóhannes segir að vísað verði í Barrington yfirlýsinguna svokölluðu frá því í október síðastliðnum, þar sem tugir fræðimanna sögðust telja aðgerðir stjórnvalda vegna COVID-19 ganga of langt. Framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sagði það siðlaust að leggja til að veirunni yrði leyft að leika lausum hala, þar sem margt væri óljóst um langtímaáhrif sýkingar á einstaklinga.
„Þetta miðar að svokölluðu stýrðu hjarðónæmi,“ útskýrir Jóhannes. „Það verður lögð ofuráhersla á að vernda viðkvæmu hópana og þetta er ekki gert í dag,“ fullyrðir Jóhannes.
Þá leggur flokkurinn til að bóluefnapassar innanlands verði bannaðir sem og bólusetningar á börnum. Þvert á það sem rannsóknir og gögn vísindafólks benda til fullyrðir Jóhannes að bóluefnin veiti enga vernd gegn veirunni sem veldur sjúkdómnum. Þá vill flokkurinn fram fari gagnsæ rannsókn á því sem Jóhannes kallar „möguleg stjórnarskrárbrot“ og meintan skaða sóttvarnaraðgerða og bóluefna.
„Það þýðir að ríkið muni beita sér fyrir því að réttarkerfið muni úrskurða um öll vafaatriði. Svo viljum við gegnsæa rannsókn um skaða sóttvarnaraðgerða og skaða bóluefna,“ segir Jóhannes. „Það þarf að fá þessar upplýsingar upp á borðið og við viljum fá að rýna þessi gögn og að þessar tölur verði gerðar opinberar.“
Flokkurinn vinni ekki með hverjum sem er
Að síðustu segir Jóhannes aðspurður að vel gangi að raða frambjóðendum á lista. „Það er ekkert mál. Við vorum þarna 70- 80 manns um helgina og hljótum að ná að manna lista,“ segir Jóhannes.
„Þetta eru þessi þrjú loforð, með útvarpsgjaldið, rannsóknina og að menn hætti þessu fári, þetta eru þessi loforð sem eru ófrávíkjanleg og við munum ekki vinna með neinum sem vill ekki samþykkja þau algjörlega,“ segir hann. Jóhannes segist gera fastlega ráð fyrir því að hann muni bjóða sig sjálfur fram.
„En við tilkynnum það ekki strax. Það kemur í ljós seinna hverjir verða,“ segir hann. Hann segist gera ráð fyrir að taka sæti í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæmanna.
