Til að bregðast við Co­vid-heims­far­aldrinum heimiluðu stjórn­völd líf­eyris­þegum, með tak­mörkunum, út­tekt á sér­eignar­sparnaði sínum án þess að það hefði á­hrif á bætur þeirra eða réttindi. Rúmu ári eftir að heimildin var gefin kom í ljós að allt að 300 líf­eyris­þegar sem nýttu sér þetta höfðu mögu­lega orðið fyrir skerðingu.

Á­stæða skerðingarinnar er ýmist sú að út­tektin var vit­laust skráð hjá vörslu­aðilum sem út­tekt vegna ör­orku, að ekki voru til rétt um­sóknar­eyði­blöð fyrir út­tektina hjá vörslu­aðila, eða að um­sóknar­eyðu­blaðið var ekki þannig hannað að líf­eyris­þeginn gæti komið því á fram­færi að um slíka út­tekt væri að ræða.

Eins og stendur er eitt mál til með­ferðar hjá Yfir­skatta­nefnd vegna slíkra skerðinga, en í síðasta mánuði kvað nefndin upp sinn fyrsta úr­skurð í slíku máli og felldi úr gildi á­kvörðun ríkis­skatt­stjóra í máli manns sem hafði tekið út sparnað sem var vit­laust skráður á skatt­fram­tali sem tekjur.

Í frétt á vef Trygginga­stofnunar í júlí í fyrra kom fram að or­sök skerðingarinnar hjá þeim væri skráning tekna í skatt­fram­tal af hálfu vörslu­aðila sér­eignar­sparnaðar. Var út­tektin skráð í skatt­fram­tal sem líf­eyris­greiðslur úr sér­eignar­sjóðum en ekki sem sér­stök út­greiðsla sér­eignar­sparnaðar, sem hefur ekki á­hrif á tekju­tengdar bætur. Þar kom svo fram að Trygginga­stofnun bæri að fara eftir skráningu frá Skattinum og gæti því ekki breytt skráningunni.

Enn eru 156 lífeyrisþegar sem bíða þess að fá skráningunni breytt og mögulega í kjölfarið endurreikning á sínum tekjum hjá TR.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Á annað hundrað bíða

Trygginga­stofnun sendi bréf til þeirra 300 sem töldu sig hafa orðið fyrir slíkri skerðingu með upp­lýsingum um hvernig væri hægt að fá leið­réttingu. Sam­kvæmt upp­lýsingum frá stofnuninni kom í ljós við nánari skoðun að alls urðu 207 ein­staklingar fyrir lækkun og við síðustu út­tekt stofnunarinnar hafði að­eins 51 þeirra fengið skatt­fram­tali sínu breytt hjá Skattinum og í kjöl­farið endur­út­reikning hjá TR.

„Það eru því 156 líf­eyris­þegar sem hafa ekki fengið endur­út­reikning vegna skráningar sér­eignar­sparnaðar á árinu 2020,“ segir í svari stofnunarinnar við fyrir­spurn Frétta­blaðsins og að í­trekað verði við hópinn hvernig er hægt að óska þess að fá þetta leið­rétt.

Júlíus Birgir ætlaði sér að taka út séreign til að kaupa sérstakan búnað sem hann þarf. Eftir skerðingar og skatta þá átti hann ekki nóg fyrir sínum hlut í búnaðinum.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Hefði frekar búið við krappari kjör og sleppt úttektinni

Júlíus Birgir Jóhanns­son hefur í meira en ár barist fyrir því að fá skráningu í skatt­fram­tali leið­rétta svo hægt verði að leið­rétta skerðingu á tekjum hans og réttindum, en í miðjum heims­far­aldri tók hann út hluta sér­eignar­sparnaðar síns, í þeirri trú að það myndi ekki skerða tekjur hans eða réttindi með neinum hætti.

Rúmu ári eftir að Júlíus­hann tók sparnaðinn út komst hann að því að út­tektin var skráð með vit­lausum hætti á skatt­fram­tali hans og reiknuð sem tekjur.

„Það hefur skapast á­kveðinn víta­hringur frá því að þetta byrjaði. Ég er dauf­blindur og heyri ekki neitt. Það kom ný­lega á markað búnaður fyrir fólk eins og mig sem að heyrnar- og tal­meina­stöðin hefur milli­göngu um, þetta er sér­stakur dyra­bjöllu­búnaður, reyk­skynjarar og vekjara­klukkur. Sjúkra­tryggingar borga bara 80 prósent en eftir standa 20 prósent. Mig vantaði peninginn fyrir mínum hluta kostnaðarins. Ég sótti um styrk hjá borginni og var að bíða eftir úr­vinnslunni þegar ég á­kveð að taka líf­eyris­sjóðinn út,“ segir Júlíus Birgir.

Hann segist hafa farið inn á vef Arion þar sem hann er með sinn sparnað. Þar var að­eins eitt um­sóknar­blað og hann fyllti það út. Að hans sögn var þetta allt nokkuð skýrt en svo ári seinna, þegar á­ætlunin kom frá skattinum, sá hann að út­tektin hafi verið reiknuð sem tekjur og hafði því, and­stætt því sem út­tektin átti að gera, á­hrif á bætur hans.

„Þetta átti ekki að vera þannig og það var haft sam­band við mig frá Trygginga­stofnun því það var eins og þau hefðu gert sér grein fyrir því að mis­tök hefðu verið gerð,“ segir Júlíus og í bréfinu sem hann fékk er honum bent á að hafa sam­band við vörslu­aðila, Arion, og Skattinn til að fá þessu breytt og þá geti þau upp­fært sínar upp­lýsingar.

Júlíus hafði að því loknu sam­band við Arion. Bankinn kannaði málið hjá sér og komst að því að á vef þeirra var ekki að finna sér­stakt um­sóknar­eyðu­blað fyrir þau sem ætluðu að taka út sér­eign í sam­ræmi við sér­stakt Co­vid-úr­ræði stjórn­valda­heldur var einungis eitt eyðu­blað og þar sem Júlíus má taka úr sér­eignina sem líf­eyris­þegi var út­tektin flokkuð þannig.

„Bankinn áttaði sig á þessu og sendi Skattinum bréf þar sem þau segja að mis­tökin séu þeirra og biðja Skattinn að breyta þessu sem svarar þeim og segir að þau geti ekki séð að ég hafi ætlað eitt­hvað annað en að taka út venju­legan líf­eyri og biðja um rök­stuðning. Hann er ekki hægt að fá, því það er hugsana­lestur,“ segir Júlíus.

Hann segir á­kvörðun Skattsins og hina röngu skráningu hafa haft víð­tæk á­hrif á líf hans og geri enn. Þar sem Skatturinn skráði þetta sem tekjur hafði það á­hrif á upp­hæðina sem hann fékk greidda út frá Trygginga­stofnun og svo í kjöl­farið skertust húsa­leigu­bæturnar í sam­ræmi við þessar meintu hærri tekjur.

„Ég veit að ég er búinn að marg­borga út­tektina til baka.“

„Svo segja allir að þau geti ekki leið­rétt þetta eða breytt því þau byggi sína út­reikninga á upp­lýsingum frá Skattinum, sem vill ekkert gera. Það er ekki svig­rúm neins staðar,“ segir Júlíus og bætir við:

„Ofan á þetta borgaði ég skatt af upp­hæðinni sem ég tók út og það endaði þannig að hún dugði mér ekki upp í búnaðinn. Vegna minna heil­brigðis­mála er ég með mikinn auka­kostnað í lífinu á hverju ári sem er fyrir utan SÍ, og sæki um á hverju ári um skatta­af­slátt sem ég hef sótt um en núna er það ekki af­greitt, út af þessu.“

Hann segir að af­leiðingarnar séu svo um­fangs­miklar og dreifist á svo margar stofnanir að hann geri sér tæp­lega vonir um að fá þetta allt til baka. Það eigi þó eftir að koma í ljós eftir ný­fallinn úr­skurð Yfir­skatta­nefndar.

„Ég veit að ég er búinn að marg­borga út­tektina til baka.“

Að­spurður segir Júlíus að hann hefði hætt við út­tektina hefði hann vitað hverjar af­leiðingarnar yrðu.

„Já, guð minn góður. Ég hefði frekar búið við krappari kjör í nokkra mánuði og safnað fyrir þessu.“

Anna Kjartansdóttir er enn í skuld við Tryggingastofnun eftir að hún tók út sína séreign.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Engin skerðing grundvöllur úttektarinnar

Anna Kjartans­dóttir tók út sér­eignar­sparnað líf­eyris­sjóðs hjá Ís­lenska líf­eyris­sjóðnum hjá Lands­bankanum árið 2020 og segist, eins og margir aðrir í þessari stöðu, hafa hakað í vit­lausan reit og út­tektin því vit­laust skráð á skatt­fram­talinu hennar.

„Ég hélt að ég væri að haka við á grundvelli sérstöku heimildarinnar í tengslum við Covid, og samkvæmt henni átti úttektin ekki að skerða mínar tekjur hjá TR. Það var grundvöllur úttektarinnar,“ segir Anna.

Hún segir að eftir að þetta uppgötvaðist hafi hún verið í stöðugu sambandi við Skattinn en að þau hafi ekki enn fengist til að breyta skráningunni á skattframtalinu hennar og segjast ekkert geta gert.

„Ég fór í skuld við Tryggingastofnun út af þessu og enn í dag er verið að skerða tekjurnar mínar þar,“ segir Anna.

Mál Ásgeirs er nú til meðferðar hjá Yfirskattanefnd eins og mál Júlíusar.
Mynd/Aðsend

Greiðslubyrðin of há því úttektin var reiknuð sem tekjur

Ás­geir Jóns­son ör­yrki tekur í sama streng og Anna, en hann tók út sér­eignar­sparnaðinn sinn hjá Al­menna líf­eyris­sjóðnum í tengslum við úr­ræði stjórn­valda í þeim til­gangi að kaupa sér hús­næði.

„Ég fékk svo bréf frá TR þar sem þau biðja líf­eyris­sjóðinn um að haka við reit 140 í stað 143 en þau neita því og biðja Skattinn að gera það, sem neitar því líka, og þá þurfti ég að borga alla summuna til baka því það er ekki reitur á eyðu­blaðinu frá Al­menna líf­eyris­sjóðnum til að haka við vegna hús­næðis­kaupa. Svo vegna þess að ég er ör­yrki er verið að hegna mér tvisvar fyrir að taka þetta út,“ segir Ás­geir, en reitur 140 á fram­talinu er sá reitur sem þeir sem taka út sam­kvæmt úr­ræðinu eiga að haka við.

Almenni lífeyrissjóðurinn hefur ekki eins og Arion viðurkennt að mistök hafi verið gerð en samkvæmt upplýsingum þaðan eru sjóðirnir ekki sambærilegir því að hjá Almenna lífeyrissjóðnum myndast séreignin ekki einungis af viðbótarlífeyrissparnaðinum heldur einnig af lágmarksiðgjaldi tryggingaverndar og það má ekki taka út fyrr en fólk er komið á aldur eða er á örorku. Það hafi verið ómögulegt að vita hvað Ásgeir ætlaði sér þegar hann tók sitt út og því sé ekki hægt að breyta skráningunni.

Það kom hvergi fram að þetta gæti valdið skerðingum hjá Tryggingastofnun

Ásgeir segir að hann sakni þess að hafa ekki fengið leiðbeiningar um umsókn sína en að þegar hann sótti um hafi ekki verið neinar leiðbeiningar á vef Almenna lífeyrissjóðsins um þetta. Þess má geta að á umsókninni þegar Ásgeir sótti um var ekki hægt að haka við að það væri vegna úrræðis stjórnvalda.

„Það kom hvergi fram að þetta gæti valdið skerðingum hjá Tryggingastofnun,“ segir Ásgeir og bætir við að hefði hann vitað af þessu þá hefði hann líklega ekki sótt um að taka sparnaðinn út.

„Við gátum keypt húsnæðið en þetta gerir greiðslubyrðina miklu erfiðari þegar greiðslurnar eru skertar í kjölfar þess að ég tók út sparnaðinn. Það reiknaði enginn með þessu,“ segir Ásgeir en hann og kona hans tóku lán sem gerðu ráð fyrir ákveðnum tekjum sem ekki eru til staðar lengur.

Búið að kæra mál Ásgeirs til yfirskattanefndar og hann bíður þess að það verði tekið fyrir.