Bjarni Már Magnússon, prófessor í lögfræði við Háskólann í Reykjavík, segir að engin lagaleg heimild sé fyrir því að skólastjórnendur ákveði hvaða börn eigi að fara í sóttkví.

„Þetta birtist þannig þegar maður er foreldri að maður fær tölvupóst. Það er aðstoðarskólastjóri sem skrifar undir ákvörðunina um að setja í sóttkví. Í sóttvarnalögum kemur ekkert fram um hlutverk skólastjórnenda eða skóla í þeim efnum. Ég held það hafi bara gleymst að það er verið að skerða borgaraleg réttindi,“ segir Bjarni.

Ísland með harðari reglur

Dæmi eru um að börnum í smitgát sé meinað að mæta í skólann og eigi að skila skjáskoti með neikvæðum niðurstöðum úr prófi. Ísland er með harðari reglur en nágrannaþjóðirnar þegar kemur að sóttkví barna.

Í Noregi fara börn ekki í sóttkví, þau sem hafa átt í samskiptum við smitaðan einstakling er ráðlagt að taka heimapróf. Sömu reglur gilda í Danmörku, nema að þeim er ráðlagt að taka PCR-próf. Svipað er uppi á teningnum í Svíþjóð og í Bretlandi.

Sligast undan álagi

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra sagði um ummæli Bjarna Más í gær: „Auðvitað er það umhugsunarefni að við séum að ganga lengra en önnur lönd þegar kemur að sóttkví barna. Við þurfum almennt í öllu er varðar börn og takmarkanir á lífi þeirra, að gæta að því að við séum að vernda þau en ekki einhvern annan. Það þarf að hafa það í huga þegar við ræðum mannréttindi barna að þau séu aldrei skert nema til að vernda þeirra eigin heilsu,“ segir Áslaug Arna.

„Það þarf að vega og meta hversu mikil hætta þeim stafar af Covid og hversu mikil áhrif þetta hefur á líf þeirra almennt þegar kemur að skólagöngu, geðheilsu og fleira. Ekki síst þegar lengra líður á faraldurinn."

Í lok sumars var ákveðið að skólastjórnendur myndu aðstoða við smitrakningu og fleiri Covid-tengd verkefni þegar smit kæmu upp í skólunum. Nú þegar fjölmörg smit eru að greinast meðal barna á grunnskólaaldri eru skólastjórnendur víða að sligast undan álagi vegna Covid-tengdra verkefna, sem rúmast ekki innan starfsskyldna þeirra.

Skólastjórnendum hefur meðal annars verið fengið það hlutverk að skila nemendalistum til rakningarteymisins ásamt því að ákveða hvaða börn eigi að fara í sóttkví og smitgát.

Ekki heimild í sóttvarnarlögum

Samkvæmt Bjarna Má Magnússyni, prófessor í lögfræði við Háskólann í Reykjavík, er engin heimild í sóttvarnalögum til að færa ákvörðunarvald um smitgát og sóttkví yfir á skólastjórnendur. Þá sé oft verið að senda heildstæða nemendalista á smitrakningarteymið, fremur en að athuga hvort börn séu líkleg til að vera útsett fyrir smiti og eru dæmi um að börn hafi fengið tilkynningu um að fara í sóttkví þegar þau eru þegar í sóttkví.

Magnús Þór Jónsson, skólastjóri Seljaskóla og nýkjörinn og tilvonandi formaður Kennarasambands Íslands, segir að það verði að endurskoða fyrirkomulagið. „Að mínu viti er algjörlega ljóst mál að þarna er verið að velta verkefnum yfir á skólastjórnendur sem samræmist ekki þeirra starfsskyldum,“ segir Magnús. „Skólastjórnendur hafa verið tilbúnir að taka á sig alls konar verkefni tengd Covid, en þetta verkefni núna er orðið svo gígantískt stórt og er farið að taka svo mikla orku og athygli frá þeirra lögbundnu og hefðbundnu störfum, að það verður að bregðast við.“

Hann tekur Seljaskóla sem dæmi en þar eru 670 nemendur. Skólinn hefur þurft að bregðast við smiti 13 sinnum frá því að skólastarf hófst í haust. Í hvert skipti séu hringd tugir til hundraða símtala til foreldra og nemenda.

Að mínu viti er algjörlega ljóst mál að þarna er verið að velta verkefnum yfir á skólastjórnendur sem samræmist ekki þeirra starfsskyldum

Foreldrar oft ekki sammála

„Svo þarf að finna út úr rakningu og vinna alls konar verkefni sem því miður eru alls ekki á forræði sérfræðinga í skólamálum,“ segir Magnús og bætir við að verkefnin séu mörg og víðtæk.

„Skólastjórar sitja uppi með það að taka stjórnvaldsákvarðanir utan skólans sem foreldrar eru jafnvel ósáttir við. Ég veit um ótal dæmi um það að foreldrar eru ekki sammála mati skólastjóra á smitrakningu og það er auðvitað eitthvað sem er ótækt í rauninni, varðandi samskipti heimilis og skóla,“ segir hann og bendir einnig á að álagið aukist þegar stór hluti starfsfólks er í sóttkví líka. „Í þeim skólum sem hafa lent verst í þessu, Seljaskóla, Fellaskóla og Langholtsskóla, er fólk bara komið niður á hnén.“

„Það virðist vera þannig að skólayfirvöldum hefur verið falið þetta hlutverk, að gefa upp nemendalista til smitrakningarteymisins,“ segir Bjarni Már, en foreldrar fá tölvupóst þar sem aðstoðarskólastjóri eða skólastjóri skrifa undir ákvörðunina um að setja barn í sóttkví.

„Í sóttvarnalögum kemur ekkert fram um hlutverk skólastjórnenda eða skóla í þessum efnum. Ég held það hafi bara gleymst að það er verið að skerða borgaraleg réttindi,“ segir Bjarni.