Sýnatökur vegna Covid-19 færast frá Suðurlandsbraut 34 í höfuðstöðvar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í Mjóddinni frá og með í dag, föstudeginum 29. apríl.

Í tilkynningu frá heilsugæslunni kemur fram að sýnatakan verður áfram opin virka daga milli 8 og 12 og um helgar milli 9 og 12. Sýnatakan verður í anddyri höfuðstöðva Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í Álfabakka 16, ekki í Heilsugæslustöðinni í Mjódd.

Eingöngu verður boðið upp á PCR-sýnatökur en hægt er að bóka hraðpróf vegna ferðalaga hjá einkaaðilum. Þeim sem eru með einkenni er bent á að bóka komu í sýnatöku á mínum síðum á vefnum Heilsuveru með rafrænum skilríkjum og er sú sýnataka almenningi að kostnaðarlausu.

Þau sem þurfa að fara í PCR-sýnatöku vegna ferðalaga geta bókað tíma á vefnum travel.covid.is og kostar sýnatakan og vottorð fyrir ferðamenn 7.000 krónur.