Til að sporna við niðursveiflu í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveirunnar hefur fjárheimild til launasjóðs listamanna verið aukin tímabundið um 100 milljónir króna.

Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpinu sem kynnt var í morgun.

Þrátt fyrir að framlag ríkisins til launasjóðs listamanna verði lægra á næsta ári heldur en á þessu ári og árinu 2020 er það samt hærra heldur en verið hafði fram að kórónuveirufaraldrinum.

Hundrað milljón krónu hækkunin er hluti af tímabundnu fjárfestingar- og uppbyggingarátaki vegna faraldursins.

Vilhelm Neto, listamaður, gagnrýndi frumvarpið á Twitter-síðu sinni í morgun og sagði niðurskurð á listamannalaunum nema 200 milljónum króna. Hann vandar ríkisstjórninni ekki kveðjurnar í færslu sinni.

Þegar betur er að gáð sést að samkvæmt fjárlagafrumvarpi ársins 2019 voru eðlileg fjárframlög ríkisins til launasjóðs listamanna í kringum 618 milljónir til 655 milljónir á árunum 2017 til 2019. Þá var áætlun fyrir árið 2020 654,6 milljónir og árið 2021 642 milljónir.

Hins vegar fór áætlunin úr skorðum þegar kórónuveirufaraldurinn hófst hér á landi það ár og fjárframlög til launasjóðs listamanna fóru úr 654,6 milljónum eins og áætlað hafði verið yfir í 932,4 milljónir og í ár voru þau 905,6 milljónir í sama sjóð. Má því ætla að aukningin hafi eingöngu verið tilkomin vegna faraldursins en ekki komin til að vera.

Í frumvarpi næsta árs, 2022, kemur fram að fjárframlög til launasjóðs listamanna muni nema 786,2 milljónum króna. Inn í því er 100 milljón króna aukning frá því sem eðlilegt var áður en faraldurinn hófst.