Allir sem hafa smitast af Covid-19 verða boðaðir í örvunarbólusetningu eins og aðrir. Þau sem hafa aðeins fengið eina sprautu eru hvött til að fara í aðra og svo að þiggja þá þriðju líka.

„Það verða að líða fimm til sex mánuðir frá annað hvort smiti eða síðustu sprautu,“ segir Þór­ólfur Guðna­son, sótt­varna­læknir, í sam­tali við Frétta­blaðið, en ein­hverjir sem fengu Co­vid hafa furðað sig á því að hafa fengið boð í örvun­var­bólu­setningu.

Þór­ólfur segir að mælt sé með því að fólk sem hefur smitast fari í örvunar­bólu­setningu því mót­efnin geti dalað með tímanum og það sé betra að verja sig þannig.

„Það eru ekki margir sem hafa fengið Co­vid aftur þannig það virðist gefa á­gætis vernd, en við höfum boðið þeim að fá aðra sprautu,“ segir Þór­ólfur.

Ein dugar ekki til

Hvað varðar Jans­sen bólu­efnið segir Þór­ólfur að mælt sé með annarri sprautu eftir það og örvunar­bólu­setningu eftir það.

„Það er klárt að ein dugar ekki og það þarf að bjóða upp á fleiri sprautur til að fá betri vernd.“

Alls greindust 147 smit í gær innan­lands og þrjú á landa­mærunum. Hann segir að fjöldinn sé eins og áður oft meiri á þriðju­dögum og mið­viku­dögum en að það sé á­nægju­legt að fjöldinn sé minni en í gær, þegar næst­mestur fjöldi smita greindist frá upp­hafi far­aldurs.

„Þetta er að fara niður á við, hægt og bítandi, en það getur auð­vitað breyst hratt.“