Starfs­maður Krónunnar í Austur­veri greindist með kórónu­veiruna um helgina og eru allir starfs­menn verslunarinnar, sem voru í sam­skiptum við um­ræddan starfs­mann, komnir í sótt­kví í sam­ráði við sótt­varna­lækni og rakninga­t­eymi al­manna­varna. Starfsmaðurinn sem greindist er í hlutastarfi.

Þetta kemur fram í til­kynningu frá versluninni.

Í henni kemur fram að smitið sé rakið til þeirra smita sem hafa verið í um­ræðunni í sam­fé­laginu síðustu daga. Búið er að sótt­hreinsa verslunina hátt og lágt. Starfs­menn úr öðrum verslunum Krónunnar koma til með að leysa þá af sem fóru í sótt­kví.

Ásta S. Fjeld­sted, fram­kvæmda­stjóri Krónunnar, segir í til­kynningunni að lögð sé á­hersla á að fylgja öllum ráð­leggingum rakninga­t­eymis og fyllstu var­úðar sé gætt.

„Búið er að sótt­hreinsa verslunina hátt og lágt til að tryggja öryggi starfs­manna og við­skipta­vina okkar. Við viljum þakka rakningar­teyminu og starfs­fólki okkar fyrir snör við­brögð og gott sam­starf, sem og við­skipta­vinum fyrir sam­vinnu á þessum flóknu tímum. Krónan heldur á­fram að leggja mikla á­herslu á sótt­varnir í verslunum sínum og minnir við­skipta­vini á grímu­skyldu og að nýta sér hand­sprittið sem er að finna víða í öllum verslunum okkar,“ er haft eftir Ástu í til­kynningunni.