Há­skóla­nemi sem verið hefur í verk­námi á Reykja­lundi undan­farna daga greindist með CO­VID-19 í gær. Ekki hefur áður verið ein­stak­lingur með virka Co­vid-sýkingu inn á Reykja­lundi svo vitað sé, að sögn Péturs Magnús­sonar, for­stjóra Reykja­lundar.

„Um leið og grunur kom upp um mögu­lega sýkingu, sem og eftir að já­kvætt sýni greindist, fóru í gang mark­vissir verk­ferlar um sótt­varnir og varnir gegn smit­leiðum. Í sam­vinnu við smitrakninga­t­eymi Al­manna­varna, hefur verið reynt að kort­leggja ná­kvæm­lega hvaða aðila við­komandi ein­stak­lingur um­gengst á Reykja­lundi síðustu daga og skil­greint hverjir gætu verið í á­hættu­hópi vegna þess,“ segir í til­kynningu sem send var fjöl­miðlum nú í morgun.

Hluta af starf­semi Reykja­lundar hefur nú verið lokað tíma­bundið í öryggis­skyni og eru um 20 starfs­menn komnir í sótt­kví. Jafn­framt hafa þeir skjól­stæðingar sem hafa verið ná­lægt við­komandi ein­stak­lingi, verið látnir vita og eru þeir ýmist í sótt­kví eða munu ekki koma á Reykja­lund næstu daga.

„Sem betur fer hafa verið mark­vissir sótt­varnar­verk­ferlar og reglur í gangi á Reykja­lundi sem bæði skjól­stæðingar og starfs­fólk hefur fylgt og því þarf ekki að grípa til al­gerrar lokunar á starf­semi. Stjórn­endur Reykja­lundar munu fylgjast grannt með stöðu mála og bregðast við eftir þörfum,“ segir í til­kynningunni.

Þá kemur fram að Reykja­lundur harmi þau ó­þægindi sem þetta kann að valda skjól­stæðingum í mikil­vægri með­ferð, sem og starfs­fólki sem málinu tengist.

„Jafn­framt ber að þakka starfs­fólki Reykja­lundar og öðrum sem að málinu hafa komið, fyrir snör og mark­viss vinnu­brögð sem vonandi hafa leitt til þess að búið er að ná eins góðum tökum á á­standinu og mögu­legt er.“

Loks segir að ljóst sé að starf­semi Reykja­lundar verði mjög tak­mörkuð næstu daga. Í þessum málum verði að sýna var­kárni, vand­virkni og vönduð vinnu­brögð til að tryggja sem best hag skjól­stæðinga og allra annara sem tengjast Reykja­lundi.