Rannsókn Landspítala og Íslenskrar erfðagreiningar var ekki gerð í samræmi við persónuverndarlög, þetta kemur fram í niðurstöðu Persónuverndar. Persónuvernd hefur lokið þremur málum sem öll varða vinnslu heilbrigðisupplýsinga í tengslum við Covid-19. Um er að ræða ákvarðanir sem snerta starfsemi sóttvarnalæknis, Landspítala og Íslenskrar erfðagreiningar og samspil þessara aðila á tímum heimsfaraldurs.

Ekkert liggur fyrir um að vinnsla persónuverndarupplýsinga hafi verið ábótavant í tveimur atriðum, þegar sýkla- og veirufræðideildar Landspítalans sem staðsettur var á starfsstöð Íslenskrar erfðagreiningar frá ágúst 2020 til febrúar 2021 og varðandi vinnslusamning sóttvarnarlæknis og Landspítala.

Persónuvernd segir það niðurstöðu sína að vinnsla persónuupplýsinga Landspítala og Íslenskrar erfðagreiningar í aðdraganda viðbótar við rannsóknina Faraldsfræði SARS-CoV-2-veirunnar og áhrif erfða og undirliggjandi sjúkdóma á COVID-19-sjúkdóminn sem hún veldur hafi ekki verið í samræmi við persónuverndarlög.

Í rannsókninni voru tekin blóðsýni úr sjúklingum sem lágu inni á Landspítalanum í byrjun apríl á síðasta ári og send Íslenskri erfðagreiningu. Blóðsýnin voru tekin áður en Vísindasiðanefnd veitti leyfi fyrir viðbótinni.

Persónuvernd segir að ekki sé heimilt að hefja vinnslu persónuupplýsinga í þágu vísindarannsókna á heilbrigðissviði nema leyfi siðanefndar liggi fyrir

Ekki verður beitt sektum í málinu í ljósi þeirrar ógnar sem stafaði af COVID-19 faraldrinum í íslensku samfélagi frá upphafi faraldursins og því álagi sem íslensk heilbrigðisyfirvöld hafi verið undir.