„Sú hætta virðist ó­neitan­lega fyrir hendi að eftir lang­varandi á­stand, líkt og það sem skapaðist í heims­far­aldrinum, fari stjórn­völd í auknum mæli að líta á skerðingu grund­vallar­réttinda sem létt­vægar eða jafn­vel sjálf­sagðan hlut með þeirri af­leiðingu að réttar­öryggi borgaranna skerðist til fram­búðar,“ segir í árs­skýrslu um­boðs­manns Al­þingis fyrir árið 2021, sem birtist í gær.

Í skýrslunni bendir um­boðs­maður Al­þingis á að, ó­líkt ýmsum ná­granna­ríkjum, virðist engar fyrir­ætlanir uppi hér­lendis um heild­stæða út­tekt á þeim ráð­stöfunum sem ráðist hafi verið í vegna Co­vid-19.

Síðustu af­skipti um­boðs­manns af sótt­varna­ráð­stöfunum stjórn­valda voru fyrir­spurn em­bættisins í febrúar 2022 um hvernig staðið hefði verið að mati ráð­herra á „brýnni nauð­syn“ sam­komu­tak­markana miðað við 50 manns og þeirri niður­stöðu að önnur vægari úr­ræðinu með til­liti til stjórnar­skrár­varinna réttinda hefðu verið úti­lokuð.

Umboðsmaður leysti úr 600 málum

Aldrei hefur verið leyst úr fleiri málum á einu ári hjá um­boðs­manni en í fyrra eða tæp­lega 600. Álit var veitt í 59 þeirra eða um tíu prósent heildarinnar, þá ýmist með eða án til­mæla. „Jafn­framt voru stjórn­völdum sendar at­huga­semdir eða á­bendingar í 41 máli til við­bótar. Hvað til­mæli í á­litum snertir þá hafa stjórn­völd al­mennt brugðist vel við og farið að þeim,“ segir í skýrslunni.

570 kvartanir bárust til um­boðs­manns árið 2021, sem er met og um fimm prósenta fjölgun var að ræða á milli ára. Tafir á af­greiðslu máls af hálfu stjórn­valda var al­gengasta um­kvörtunar­efnið í fyrra, eða tæp­lega fjór­tán prósent af form­legum kvörtunum.