Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans, segir húsakost Landspítalans óboðlegan. Húsnæði aðalgöngudeildar smitsjúkdómadeildarinnar sé meira að segja ekki múshelt.

„Við höfum lengi verið með spítalann í yfirkeyrslu, um og yfir hundrað prósenta rúma­nýtingu, en við höfum verið með of fátt heilbrigðisstarfsfólk,“ sagði Már á Fréttavaktinni á Hringbraut í gærkvöldi og bætti við að of fátt starfsfólk drægi úr getu spítalans til að sinna öðrum og mikilvægum störfum.

Í þeirri stöðu sem uppi er ræður Landspítalinn einfaldlega ekki við farsótt eins Covid.

„Við erum búin að þrauka í 22 mánuði með skerðingu á starfsemi og það er ekkert í kortunum annað en að það verði svona áfram, nema eitthvað mjög drastískt verði gert í samfélaginu,“ benti Már á.

Starfsmenn Landspítalans eru afar stoltir af stofnuninni, sagði Már. Hins vegar þurfi mikið að breytast.

„Við erum í stöðugri samkeppni um fólk, að fá fólk að utan úr námi. Við þurfum að skapa ungu fólki gott vinnuumhverfi og vera samkeppnishæf því sem gerist erlendis.“

Byggingar spítalans, sem margar hverjar voru byggðar um miðja síðustu öld, sagði Már að væru ósveigjanlegar og mættu ekki á nokkurn hátt þörfum nútímans.

„Birkiborg er ónýtilegt húsnæði. Þar hefur samt verið haldið uppi aðalgöngudeildinni okkar,“ sagði Már og bætti við að húsið væri ekki múshelt.

„Þetta er ekki mönnum bjóðandi.“

Nýr Landspítali er í byggingu en Már sagði of langt í að smitsjúkdómadeildin gæti flutt starfsemi sína þangað.

„Við í framkvæmdastjórninni erum að horfa til átta til tíu ára þangað til við erum flutt þangað inn. Það er kannski áratugur. Þetta er of dýrkeypt fyrir okkur,“ sagði Már enn fremur, en Fréttavaktin er á dagskrá alla virka daga á Hringbraut klukkan 18.30