„Við höfum verið að sjá núna undan­farið dá­litla fjölgun, dag­legur fjöldi smita sem við erum að greina opin­ber­lega hefur verið að fara upp í 350 manns,“ segir Þór­ólfur, en flestir sem eru að smitast núna eru að fá sjúk­dóminn í fyrsta skipti að sögn Þór­ólfs.

„Flestir af þeim sem eru að smitast er fólk sem er að smitast í fyrsta sinn. Þannig við vitum það að bólu­setninginn kemur ekki í veg fyrir smit, en hún kemur í veg fyrir al­var­leg veikindi,“ segir Þór­ólfur og bætir við að flestir af þeim sem hafa ekki fengið Co­vid sjúk­dóminn áður eru eldri ein­staklingar.

„Við vitum það að ef eldri ein­stak­lingur fær Co­vid þá þolir hann það miklu verr en yngra fólk. En flestir þeirra sem eru að leggjast inn núna vegna Co­vid er fólk með undir­liggjandi sjúk­dóma.“

Þór­ólfur segir að á­hrif bólu­efna við Co­vid-19 fari minnkandi með tímanum og hvetur eldra fólk til að mæta í fjórðu sprautuna.

„Það er alveg rétt að á­hrifin minnka með tímanum, sér­stak­lega á­hrifin gegn smiti. Það er ekki alveg eins aug­ljóst með á­hrifin gegn al­var­legum veikindum. Það er á þeim grunni sem við erum að hvetja eldra fólk með undir­liggjandi sjúk­dóma að mæta í fjórðu sprautuna, til þess að reyna efla ó­næmis­kerfið eins og mögu­legt er, þannig að þeir sem eru við­kvæmir veikist síður og veikist síður al­var­lega,“ segir Þór­ólfur.

Hann segir að það sé ekki hvatt til þess að ungt, hraust fólk mæti í fjórðu sprautuna.

„Á­stæðan er sú að yngra fólk fær sýkinguna vægar heldur en eldri ein­staklingar, ég tala nú ekki um þá sem eru bólu­settir, þeir fá sýkinguna mun vægar. Jafn­vel þó að bólu­settir geti fengið smit og smitað, þá er sýkingin miklu vægari hjá ungu fólki. Þannig við erum ekki að hvetja hraust, ungt fólk til þess að mæta í sína fjórðu sprautu,“ segir Þór­ólfur.

Þór­ólfur segir að Co­vid sé ekki búið og að það sé mikil­vægt að vernda við­kvæmustu hópana.

„Co­vid er ekki búið. Það er enn að ganga á milli manna og fólk er að smitast. Svo náttúru­lega bætist það ofan á að fólk er kannski ekki að passa sig sér­stak­lega vel, svona flestir, þó að það séu margir sem geri það. Við þurfum bara að reyna að vernda þá við­kvæmu eins vel og við getum,“ segir Þór­ólfur.