Covid- 19 er þriðja algengasta dánarorsökin í Svíþjóð í ár. Landlæknisembætti Svíþjóðar lagði fram nýja tölfræði um dánarorsakir í landinu á fyrri hluta 2020 í dag.

Samkvæmt tölfræðinni var Covid-19 þriðja algengasta dánarorsökin, á eftir hjarta- og æðasjúkdómum og krabbameini. SVT greinir frá.

Tölfræðin nær til 51.535 andláta í landinu frá 30. janúar til 30. júní 2020. Alls létust 14 þúsund manns úr hjarta- og æðasjúkdómum fyrstu sex mánuði ársins, 11.600 vegna æxlis og rúmlega 5.500 úr Covid-19. Sjúkdómurinn hefur jafnframt stuðlað að aukinni dánartíðni, 10 prósent aukningu meðal kvenna og 14 prósent meðal karla samanborið við fyrri hluta árs 2019.

Meðalaldur þeirra sem létust fyrri hluta ársins 2020 var 82,5 ár hjá konum og 77,6 ár hjá körlum, um það bil hálfu ári hærra hjá báðum kynjum miðað við síðasta ár.

Engin aukning á sjálfsvígum

Miklar áhyggjur voru af því að heimsfaraldurinn myndi einnig auka sjálfsvíg í landinu. Samkvæmt tölfræði Landlæknisembættisins virðist svo ekki vera.

Fjöldi sjálfsvíga á tímabilinu voru 611, 437 karlar og 174 konur. Á sama tímabili í fyrra voru þau alls 638.

Smitum fjölgar ört

Svíar fóru sína eigin leið þegar heimsfaraldur kórónuveirunnar skall á í vor, svokölluðu „sænsku leiðina". Sótt­varn­a­regl­ur í Svíþjóð hafa hingað til þótt slak­ari en víðast hvar ann­ars staðar og lífið hefur að mestu fengið að ganga sinn vanagang. Í september voru ný smit kórónuveirunnar fá í Svíþjóð og spurningar vöknuðu hvort að sænska leiðin hafi virkað. Síðan þá hef­ur út­breiðslan auk­ist mjög og er ný­gengi kór­ónu­veirunn­ar í Svíþjóð nú 512, sam­an­borið við 84 á Íslandi.

Stefan Löven var þungur á brún þegar hann tilkynnti hertar aðgerðir í landinu í gær.
Fréttablaðið/AFP

Stefan Löven, forsætisráðherra Svíþjóðar tilkynnti um hert samkomubann í landinu í gær sem tekur gildi þann 24. nóvember næstkomandi. Frá og með þeim degi mega aðeins átta manns koma sam­an þar í landi en hingað til hefur samkomubann miðast við 50 manns. Bannið gild­ir í fjór­ar vik­ur hið minnsta.

Í gær greindust tæplega sex þúsund manns með veiruna og 42 létu lífið af völdum Covid-19.