Yfirvöld í Norður-Kóreu tilkynntu í dag að fyrstu Covid-19 smitin hafi greinst í landinu, rúmum tveimur árum eftir upphaf faraldursins. Fram að þessu hafa yfirvöld í landinu haldið því fram að engin smit hafi komi þar upp, staðhæfing sem hefur vakið nokkuð af efasemdum.
Kim Jong-un, leiðtogi landsins, tilkynnti í dag að ströngustu sóttvarnarreglur muni taka gildi í kjölfar þess að ónefndur fjöldi fólks greindist smitast af Ómíkron afbrigði kórónuveirunnar í höfuðborginni, Pyongyang.
Í tvö ár hafa landamæri landsins verið lokuð nánast öllum gestum og viðskiptum. Út af lokun landamæranna hefur landið þurft að glíma við vöru- og matarskort auk neikvæðra áhrifa á efnahaginn.
Í janúar á þessu ári var á fyrsta sinn opnað fyrir vöruflutningar frá Dandong í Kína til norður-kóresku borgarinnar Sinuiju, á landamærum landsins. Fyrir um mánuði síðan stöðvuðu yfirvöld í Kína vöruflutning frá Dandong á meðan ný smitbylgja reið yfir borgina.
Yfirvöld í Norður-Kóreu hafa hingað til ekki tekið á móti neinum bóluefnagjöfum frá öðrum löndum eða frá COVAX verkefni Sameinuðu þjóðanna. Þess í stað var reynt að takast á við faraldurinn með stranglega lokuðum landamærum. Margir hafa þó lýst yfir efasemdum um að veiran hafi aldrei komist inn í landið fyrr en nú.