„Ramadan snýst að miklu leyti um að koma saman, hitta vini, fjölskyldu og að tengjast fólkinu í kringum okkur. COVID-19 hefur haft mikil áhrif á fjölda fólks um allan heim á Ramadan,“ segir Muhammed Emin Kizilkaya, meistaranemi við Háskóla Íslands, aðspurður um áhrif COVID-19 á Ramadan, helgasta mánuð múslima. Á morgun er síðasti dagur Ramadan, Eid al-fitr, það er helgasta hátíð múslima. Ramadan hefur staðið yfir frá því 23. apríl.

Í Ramadanmánuði neita múslimar sér um allar girndir lífsins frá sólarupprás til sólarlags, þar með talið mat og drykk.

„Hefðbundinn dagur hjá mér á Ramadan hefst á því að ég vakna klukkan þrjú að morgni og bið. Síðan fæ ég mér smá að borða og vel mér eitthvað sem er hollt og næringarríkt, svo passa ég mig á að drekka nóg af vatni. Svo hefst fastan á bilinu hálf fjögur og fjögur,“ segir Muhammed.

„Fyrstu dagarnir eru erfiðir en eftir nokkra daga líður manni ótrúlega vel. Ég sé mun á húðinni minni og tönnunum og allt kemst í betra jafnvægi. Ég er fullur af krafti sem ég nýti í að hjóla, æfa og hlaupa. Maður fer að hugsa öðruvísi um mat og það verður auðveldara að stjórna því hvað maður borðar,“ segir hann.

Múslimar á Íslandi fara margir eftir sólargangi í Frakklandi á föstutímabilinu. „Sólstöðurnar hér gera það að verkum að við myndum fasta í 18 til 22 tíma. Við förum því eftir frönskum sólargangi og ástæðan er staða landsins. Fastan á nefnilega ekki að vera kvöð, heldur veljum við okkur sjálf að fasta. Þeir sem vilja það ekki eða geta ekki, til dæmis þeir sem eru veikir, eiga í einhvers konar erfiðleikum eða ófrískar konur, sleppa því,“ útskýrir Muhammed.

„Ramadan snýst ekki bara um að borða ekki, heldur um að horfa ekki þangað sem þú átt ekki að horfa, snerta ekki það sem þú átt ekki að snerta, láta af slæmum ávönum og láta ekki eftir öllum þínum þrám, heldur hjálpa þeim sem á þurfa að halda og setja þig í þeirra spor. Það er það sem er kallað Stóra Jihad [Stóra stríðið]. Það er hugtak er oft misskilið og hefur fengið ranga merkingu,“ segir Muhammed. „Stóra Jihad snýst um að berjast við eigin langanir, hemja neikvæðar hugsanir og vera besta útgáfan af sjálfum þér,“ bætir hann við.

„Stór hluti dagsins fer í bænir og vaninn er að fara til moskunnar og biðja á hverjum degi þegar fastan er brotin en í ár höfum við ekki geta gert það, vegna aðstæðna. Bænahaldið hefur því verið meira heima hjá fólki. Ég hef lesið meira í Kóraninum en vanalega vegna þessa en ég hef líka sett auka fókus á að sinna góðgerðarmálum í ár, það hafa margir vinir mínir líka gert,“ segir hann en góðgerðir og hjálparstarf spila stóran þátt í Ramadan.

„Tilfinningin sem þú upplifir þegar þú neitar þér um mat og drykk, það að vera svangur, sú tilfinning hjálpar okkur að setja okkur í spor þeirra sem þjást og líður illa,“ segir hann.

Muhammed segist hafa mikla orku þrátt fyrir að fasta, orkuna notar hann í hreyfingu.
Mynd/Fannar Freyr