Dæmi eru um að fólk sem sýkist af COVID-19 fái heilablóðfall og hljóti varanlegan heilaskaða.

Heilablóðföll eru mest áberandi í alvarlegum tilfellum sjúkdómsins en hafa einnig komið fram eftir vægari veikindi, meðal annars hjá ungu og hraustu fólki þó það sé sjaldgæft.

Þetta kemur fram í svari Jóns Magnúsar Jóhannessonar, deildarlæknis á Landspítalanum, við fyrirspurn á Vísindavefnum.

Sjúkdómurinn hafi áhrif á heilann og miðtaugakerfið

Þar segir hann að strax í upphafi COVID-19 faraldursins hafi komið í ljós að sjúkdómurinn gæti haft áhrif á miðtaugakerfið og þar með talið heilann.

„Kínversk rannsókn á rúmlega 200 inniliggjandi sjúklingum með COVID-19 sýndi að um þriðjungur var með einkenni frá miðtaugakerfi, meðal annars svonefnda óáttun (e. disorientation - hugtakið vísar til þess að fólk getur villst á stöðum sem það ætti að þekkja vel) og bráða sjúkdóma í heilaæðum.“

Þó hafi gengið erfiðlega að komast nákvæmlega að orsökum þessara einkenna og fá staðfest hvort þau eru bein afleiðing COVID-19 eða tengist frekar almennt bráðum veikindum sem þarfnist innlagnar á gjörgæslu.

Geti leitt til varanlegs heilaskaða

Vitað sé að í alvarlegum tilfellum hafi COVID-19 sérstaklega mikla tilhneigingu til að auka storkuhættu í æðakerfi líkamans, til að mynda með þeim afleiðingum að svokölluð blóðsega myndist sem geti dreifst víða um líkamann.

„Slíkir blóðsegar geta stíflað æðar sem liggja til heila og minnkað blóðflæði þangað - að lokum getur svæðið sem æðin nærir, dáið og valdið varanlegum skaða á heila. Þetta kallast blóðþurrðardrep í heila (e. cerebral infarction) og getur orsakað bráða truflun á starfsemi miðtaugakerfisins, það er heilablóðfall (e. stroke),“ segir í svarinu.

COVID-19 geti einnig valdið ástandi sem líkist því sem kallist óráð en orsakavaldurinn sé líklegast stafræn truflun á virkni miðtaugakerfisins og sé í raun mögulegur fylgifiskur allra alvarlegra veikinda. Eldra fólk og langveikir séu sérstaklega í hættu hvað þetta varðar.

Ekki verið sýnt fram á veiran geti sýkt heilavef

Þá hafi í örfáum tilfellum verið merki um bólgu í heilanum sjálfum. Vegna þessa hafi komið upp vangaveltur um hvort nýja kórónaveiran geti sýkt heilavefinn og valdið þar skaða.

„Til þessa hefur þó ekki verið sýnt fram á slíkt og því eru sjaldgæf tilfelli heilabólgu líklegast frekar óbein afleiðing COVID-19, mögulega vegna skerðingar á súrefnisflutningi um líkamann, mikillar bólgu í líkamanum eða dreifðrar segamyndunar í æðakerfi heilans,“ segir Jón Magnús Jóhannesson, deildarlæknir á Landspítalanum.