Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur gefið það út að COVID-19 faraldurinn sé flokkaður sem heimsfaraldur en forstöðumaður stofnunarinnar, Tedros Adhanom Ghebreyesus, tilkynnti þetta á blaðamannafundi í dag.

Stofnunin segist hafa áhyggjur af útbreiðslu veirunnar en rúmlega 120 þúsund manns hafa smitast af veirunni og tæplega 4400 látist. „Við erum í þessu saman, til að gera réttu hlutina með ró og vernda íbúa heimsins. Það er geranlegt,“ sagði Tedros á fundinum og hvatti fólk til að halda ró sinni.

Þá ítrekaði Tedros að öll lönd þurfi að vera viðbúin til að takast á við faraldurinn og að heilbrigðisyfirvöld þurfi að vera sérstaklega undirbúin. „Pössum öll upp á hvort annað,“ sagði Tedros.

Líkt og áður hefur komið fram hefur útbreiðsla veirunnar utan Kína, þar sem hún kom fyrst upp, aukist töluvert á síðustu vikum og hafa aðgerðir víða ekki dugað til að takast á við vandann.

Á Íslandi eru 90 smit staðfest og eru um 700 manns í sóttkví en gripið hefur verið til ýmsra ráðstafanna til að bregðast við útbreiðslu veirunnar. Verið er að skoða hvort mögulega þurfi að grípa til samgöngubanns en að sögn Þórólfs Guðnasonar hefur ekki verið ákveðið hvenær það gæti gerst.

Fréttin hefur verið uppfærð.