Kórónaveirusjúkdómurinn COVID-19 er ekki einungis öndunarfærasjúkdómur heldur leggst hann á mörg líffærakerfi.

Alma D. Möller landlæknir greindi frá þessu á upplýsingafundi almannavarna í dag í svari fyrir fyrirspurn DV um sjúklinga sem hafa glímt með augnvandamál eftir að hafa greinst með COVID-19.

„Við könnumst við að þetta eru ótrúlega fjölbreytt einkenni sem fólk er að glíma við og eitt af einkennum eru blóðtappar og blóðrásartruflanir,“ sagði Alma.

Heilbrigðisstarfsfólk og vísindamenn um allan heim er stöðugt að stúdera sjúkdóminn og hafa nú fjölmörg tilfelli sýnt fram á að einkennin séu mörg og geta haft langtímaafleiðingar.

Aðspurð hvort það sé misskilningur að COVID-19 sé öndunarfærasjúkdómur en ekki til dæmis taugasjúkdómur segir Alma:

„Við höfum alltaf sagt að þetta er sjúkdómur sem leggst á mjög mörg líffærakerfi og lungun voru kannski mest áberandi til að byrja með. En það er þekkt að það eru einkenni frá hjarta- og æðakerfi, frá meltingarkerfi, frá taugakerfi, blóðstorku kerfi og nýrum. Þannig að þetta er veira sem fer um allan líkamann og getur valdið mjög fjölþátta einkennum.“