Ghana hefur nú gerst fyrsta landið til þess að fá bólu­efni gegn CO­VID-19 í gegnum sam­starfs­verk­efni Al­þjóð­heil­brigðis­mála­stofnunarinnar, WHO, en verk­efnið, CO­VAX, snýst um að fjár­magna og dreifa bólu­efni til fá­tækari ríkja heims.

Að því er kemur fram í frétt BBC um málið var 600 þúsund skömmtum af bólu­efni AstraZen­ca dreift til Accra, höfuð­borgar Ghana, fyrr í dag og er gert ráð fyrir að bólu­setningar geti hafist þar í landi í næstu viku.

Meðal þeirra fyrstu sem verða bólu­settir eru heil­brigðis­starfs­menn, ein­staklingar yfir 60 ára aldri, fólk með undir­liggjandi sjúk­dóma, og hátt settir em­bættis­menn.

Um 30 milljón manns búa í landinu og hafa rúm­lega 80 þúsund til­felli CO­VID-19 verið stað­fest en talið er að sú tala sé í raun hærri þar sem sýna­tökur hafa verið af skornum skammti.

Jafna leikvöllinn

Mark­miðið með CO­VAX verk­efninu er að dreifa um tveimur milljörðum skammta á heims­vísu fyrir árs­lok en sex milljörðum Banda­ríkja­dala, eða rúm­lega 760 milljörðum ís­lenskra króna, hefur þegar verið varið í verk­efnið. Um tvö milljarða dala vantar til við­bótar til að ná á­ætlun fyrir árið.

Margar af ríkari þjóðum heims hafa verið harðlega gagnrýndar fyrir að tryggja sér meira magn bóluefnis en þarf til að bólusetja alla landsmenn. Verkefnið er liður í að jafna leikvöllinn.

Í sam­eigin­legri yfir­lýsingu WHO og Unicef um málið segir að dreifingin til Ghana sé „mikil­vægt skref til að binda enda á far­aldurinn.“

Tedros Adhanom Ghebreyesus, yfir­maður WHO, sagði þó að á­fanginn í dag hafi að­eins verið byrjunin þar sem ekki væri hægt að binda enda á far­aldurinn nema það sé gert alls staðar.