Efir vel heppnað landnám á Íslandi, fyrstu Norðurlandanna, hyggur bandaríski verslunarrisinn Costco á innrás í Svíþjóð ef marka má fréttir sænska viðskiptafréttamiðilsins Breakit.se.

Costco hefur gert óörfáar undantekningar á þeirri reglu sinni að opna ekki verslanir í borgum með færri en eina milljón íbúa. Verslun Costco í Kauptúni í Garðabæ er eitt dæmi um þetta. 

Sjá einnig: Costco velti 8,65 milljörðum á Íslandi

Í ljósi þessa er gengið að því gefnu að Costco hafi augastað á Stokkhólmi og nágrenni og samkvæmt Breakit er Arninge sá staður sem risinn er helst að skoða en hermt er að IKEA hafi einnig hug á að koma sér fyrir þar.

Breakit heldur því vandlega til haga í umfjöllun sinni að Costco hafi opnað sína fyrstu verslun á norðurslóðum á Íslandi í maí 2017 í verslunarhverfi í grennd við Reykjavík. Þá er Costco sagt hafa haft merkjanleg áhrif á kauphegðun og íslenskan markað.

Sjá einnig: Innreið Costco breytir ekki stöðu Haga

Greint er frá því, með vísan til umfjöllunar íslenskra fjölmiðla, að á aðeins hálfum mánuði hafi 60.000 manns í landi sem telur rétt undir 350.000 manns skráð sig sem viðskiptavin Costco. Í febrúar á síðasta ári hafi síðan 71% mannfjöldans verið komnir með Costco-kort.

Þess er jafnframt getið að ásókn Íslendinga í ódýrar amerískar vörur hafi olíufélög og matvöruverslanir fengið að finna hressilega fyrir Costco og samkeppnin á báðum mörkuðum harðnað til muna.

Sjá einnig: Tilkoma Costco hefur ekki lækkað verð á sjónvörpum

Costco neitar að tjá sig við Breakit um hugsanlega Svíþjóðarinnrás með vísan til þess að á þeim bænum tíðkast ekki að upplýsa um nýjar verslanir fyrr en tveimur til þremur mánuðum áður en þær opna.