„Við fundum leið til að bjóða þær til sölu á hag­stæðara verði,“ segir Brett Vigelskas, fram­kvæmda­stjóri Costco á Ís­landi, í sam­tali við Frétta­blaðið.

Costco hefur lækkað verð á and­lits­grímum, 50 saman í pakka, úr 4.639 krónum niður í 2.430 krónur. Fyrst var greint frá þessu á vef Ei­ríks Jóns­sonar.

„Við bjóðum þær til sölu á lægsta mögu­lega verði,“ segir Brett sem þýðir að á­lagningin á grímunum er engin.

Mikil eftir­spurn hefur verið eftir and­lits­grímum undan­farna daga enda hefur kórónu­veiran sótt aftur í sig veðrið hér á landi. Þá er komin grímu­skylda við vissar að­stæður, til dæmis þar sem ó­tengdir ein­staklingar koma saman og ekki er hægt að tryggja tveggja metra regluna.

Brett segir að Costco hér á landi hafi selt mjög mikið magn af grímum að undan­förnu og til marks um það seldust þær upp í versluninni í dag. Hann segir að von sé á fleiri grímum á morgun og aftur á sunnu­dag ef þær seljast upp á morgun.

Brett sagðist ekki hafa ná­kvæmar upp­lýsingar um grímurnar en sam­kvæmt vef­síðu Costco í Bret­landi eru þær þriggja laga og frá fyrir­tækinu BYD.

„Þær hafa verið mjög vin­sælar af aug­ljósum á­stæðum og við viljum bjóða þær á besta mögulega verðinu í ljósi þeirra að­stæðna sem eru uppi,“ segir hann.