Bill Cos­by var í gær fundinn sekur um að hafa brotið kyn­ferðis­lega gegn sex­tán ára stelpu í Play­boy setrinu árið 1975. Hann var þá 37 ára en er núna 84 ára. Réttar­höldin hafa staðið yfir í tæpan mánuð.

Judy Huth stefndi Cos­by fyrir brotið en hún er nú 64 ára gömul. Cos­by er gert að greiða henni 500 þúsund dollara í miska­bætur. Rúm­lega fimm­tíu konur hafa sakað Cos­by um að hafa brotið gegn sér kyn­ferðis­lega yfir hálfrar aldar tíma­bil.

Sam­kvæmt frá­sögn Huth hitti hún og vin­kona hans Cos­by í al­mennings­garði þar sem hann bauð þeim að koma með sér í Play­boy setrið. Þar neyddi hann Huth til að gera kyn­ferðis­lega hluti án hennar sam­þykkis. Huth stefndi Cos­by fyrst árið 2014 en hann hefur neitað sök.

Cos­by mætti ekki sjálfur í réttar­höldin en sagðist ekki muna eftir Huth og heldur því fram að hann hefði ekki leitast eftir kyn­ferðis­legum sam­skiptum við ein­stak­ling undir lög­aldri á þessum tíma.

Lög­maður Cos­by segir að þau muni á­frýja niður­stöðunni en segir hana samt sem áður vera á­kveðinn sigur fyrir Cos­by þar sem Huth hafi upp­runa­lega farið fram á átta milljónir dollara. Lögmaður Huth segist hæstánægð með niðurstöðuna og stolt af skjólstæðingi sínum.

Cos­by var áður fundinn sekur um að hafa brotið gegn konu með því að byrla henni og beita henni kyn­ferðis­of­beldi. Fyrir um ári síðan snéri hæstiréttur við þeim dómi með þeim af­leiðingum að Cos­by var sleppt úr fangelsi.