Vélin er 670 hestöfl og skilar 624 Newtonmetra togi. Svona til samanburðar skilar Cadillac CT5-V Blackwing 668 hestöflum með keflablásara. Vélin er 5,5 lítrar og það sem er öðruvísi við hana er að hún er með láréttari sveifarás en gengur og gerist sem bæta á endingu hennar undir álagi. Vélin er ekkert sérlega togmikil en skilar miklu afli á háum snúningi sem hentar vel brautarbíl eins og þessum. Vélin hefur í raun og veru verið í prófunum síðan 2019 þegar byrjað var að nota hana í C8-R keppnisbílnum. Þessu til viðbótar er margt gert til að létta bílinn með því að nota koltrefjafelgur, koltrefja-keramikbremsur og endurhannaðan undirvagn. Margt annað í bílnum minnir á keppnisbíl eins og olíukerfi með olíutanki undir þrýstingi, sérhannað pústkerfi og fjöðrun, auk sex stimpla bremsudæla. Að aftan verður stillanleg vindskeið og í koltrefja-útgáfu bílsins er stór loftdreifari að framan auk loftflæðipakka.