Mest selda bílgerð heims, Toyota Corolla, kemur af nýrri kynslóð í næsta mánuði og verður nú framleidd í Bretlandi fyrir Evrópumarkað. Corolla bílar fyrir Evrópumarkað hafa undanfarin ár verið smíðuð í Tyrklandi, en verða nú smíðaðir í Burnastone verksmiðju Toyota í Bretlandi þar sem aðallega hafa verið smíðaðir Toyota Auris bílar. Burnastone verksmiðjan er í Derbyshire og hefur hún verið rekin síðan 1992. Þar vinna 3.800 manns. 

Átta af hverjum tíu Toyota bílum sem seljast í Evrópu eru framleiddir í Evrópu, enda rekur Toyota einar 9 bílaverksmiðjur í álfunni og þar vinna yfir 20.000 manns. Toyota Corolla er ekki bara sá bíll sem selst hefur í flestum eintökum í heiminum, eða í yfir 40 milljón eintökum frá upphafi, heldur hefur hann lengi vel verið sá bíll sem selst í flestum eintökum á hverju ári. Í fyrra seldist hann í meira en einni milljón eintaka. 

Ný Corolla mun bæði fást í Hybrid-útgáfu og með bensínvélum, en héðan í frá mun Corolla ekki lengur fást með dísilvélum. Afl vélanna verður frá 114 til 178 hestöfl en sú öflugasta er í Hybrid útgáfu með 2,0 lítra bensínvél og rafmótorum.