Jeremy Cor­byn, for­maður Verka­manna­flokksins í Bret­landi, segir að hann skoði nú allar leiðir svo hægt sé að forðast Brexit án samnings. Að öllu ó­breyttu ganga Bretar úr Evrópu­sam­bandinu 29. mars. 

Cor­byn átti í gær fund með fyrr­verandi ráð­herrum Í­halds­flokksins, þeim Nick Bo­les og Sir Oli­ver Letwin, en þeir hafa talað fyrir því að málum Breta verði hagað líkt og Norð­manna, með því sem þeir hafa kallað „Innri markaðurinn 2“. Það yrði þá ekki ó­svipað EES-samningnum sem Norð­menn, Ís­lendingar og Liechten­stein eiga aðild að í gegnum EFTA.

Cor­byn segist ekki til­búinn að skuld­binda sig til að standa að baki slíkri hug­mynd eins og staðan er í dag. For­svars­menn Evrópu­sam­bandsins segja að unnið verði sleitu­laust þar til kosið verður um samning May og ESB á þriðju­dag í næstu viku. 

Þeir kalla eftir því að bresk stjórn­völd setji sann­gjarnar kröfur er lúta að hinni svo­kölluðu írsku var­úðar­ráð­stöfun (e. Irish Back­stop) sem felur í sér að Norður-Írar þurfi að hlýða stærri hluta af reglu­­verki ESB til þess að koma í veg fyrir sýni­­leg landa­­mæri. 

Verka­manna­flokkurinn vill að Bretar haldi á­fram í tolla­banda­lagi með ESB-ríkjunum og fór flokkurinn raunar fram á það þegar May fór til Brussel í þeirri erinda­gjörð að semja upp á nýtt eftir að samningur hennar og ESB var kol­felldur í neðri mál­stofu breska þingsins í janúar. 

Cor­byn hefur ekkert út­listað það frekar hvort Bretar myndu þannig ganga inn í EFTA-sam­komu­lag Ís­lendinga, Norð­manna, Sviss og Liechten­stein eða sækja um beina aðild, líkt og EFTA-ríkin, að EES.