Giu­seppe Conte hefur nú sagt af sér sem for­sætis­ráð­herra Ítalíu vegna ó­sættis um efna­hags­að­gerðir vegna CO­VID-19 heims­far­aldursins en flokkarnir á þingi eru klofnir hvað að­gerðirnar varðar. Ítalski for­setinn, Sergio Mattarella, mun nú taka málið fyrir og á­kveða næstu skref.

Að því er kemur fram í frétt BBC gæti Mattarella á­kveðið að veita Conte, sem hefur verið for­sætis­ráð­herra frá árinu 2018, um­boð til þess að mynda nýja ríkis­stjórn en einnig gæti nýr for­sætis­ráð­herra þurft að taka við. Einnig er mögu­legt að boða þurfi til nýrra kosninga.

Forsetinn mun næstu daga ræða við leiðtoga flokkanna í von um að hægt verði að mynda nýja ríkisstjórn. Þetta er í annað sinn sem Conte segir af sér en í fyrra skiptið náði hann að mynda nýja ríkisstjórn.

Ósætti vegna COVID-19

Mikil ó­vissa hefur verið um ítölsku ríkis­stjórnina síðast­liðnar vikur eftir að frjáls­lyndi flokkurinn Itali­a Viva sagði sig úr henni fyrr í mánuðinum. Í kjöl­farið fór fram at­kvæða­greiðsla innan þingsins þar sem neðri deildin lýsti yfir trausti til Conte en innan efri deildarinnar fékk hann að­eins nauman meiri­hluta.

Þá hafa flokkarnir á þingi verið veru­lega ó­sam­mála um að­gerðir gegn CO­VID-19 en þjóðin hefur komið sér­stak­lega illa út úr far­aldrinum. Fyrst Conte er ekki með meiri­hluta innan efri deildarinnar er það tak­markað hvað ríkis­stjórnin getur gert í þeim málum.

Eins og staðan er í dag hafa hátt í 2,5 milljón til­felli smits greinst á Ítalíu og tæp­lega 86 þúsund látist eftir að hafa smitast.