Giuseppe Conte hefur nú sagt af sér sem forsætisráðherra Ítalíu vegna ósættis um efnahagsaðgerðir vegna COVID-19 heimsfaraldursins en flokkarnir á þingi eru klofnir hvað aðgerðirnar varðar. Ítalski forsetinn, Sergio Mattarella, mun nú taka málið fyrir og ákveða næstu skref.
Að því er kemur fram í frétt BBC gæti Mattarella ákveðið að veita Conte, sem hefur verið forsætisráðherra frá árinu 2018, umboð til þess að mynda nýja ríkisstjórn en einnig gæti nýr forsætisráðherra þurft að taka við. Einnig er mögulegt að boða þurfi til nýrra kosninga.
Forsetinn mun næstu daga ræða við leiðtoga flokkanna í von um að hægt verði að mynda nýja ríkisstjórn. Þetta er í annað sinn sem Conte segir af sér en í fyrra skiptið náði hann að mynda nýja ríkisstjórn.
Ósætti vegna COVID-19
Mikil óvissa hefur verið um ítölsku ríkisstjórnina síðastliðnar vikur eftir að frjálslyndi flokkurinn Italia Viva sagði sig úr henni fyrr í mánuðinum. Í kjölfarið fór fram atkvæðagreiðsla innan þingsins þar sem neðri deildin lýsti yfir trausti til Conte en innan efri deildarinnar fékk hann aðeins nauman meirihluta.
Þá hafa flokkarnir á þingi verið verulega ósammála um aðgerðir gegn COVID-19 en þjóðin hefur komið sérstaklega illa út úr faraldrinum. Fyrst Conte er ekki með meirihluta innan efri deildarinnar er það takmarkað hvað ríkisstjórnin getur gert í þeim málum.
Eins og staðan er í dag hafa hátt í 2,5 milljón tilfelli smits greinst á Ítalíu og tæplega 86 þúsund látist eftir að hafa smitast.
BREAKING: Italy’s PM @GiuseppeConteIT has survived vote of confidence
— Alberto Alemanno (@alemannoEU) January 19, 2021
His is now a minority government.
Renzi & co. might have made things worse for Italy at #covid times
An historical, unforgivable responsibility https://t.co/ATGuzqdRbx