Fyrrverandi lögmaður Donald Trump Bandaríkjaforseta, Michael Cohen, var í dag dæmdur til þriggja ára fangelsisvistar.

Hann var dæmdur fyrir ýmis brot, meðal annars að hafa borið fé á tvær konur (Stormy Daniels og Karen McDougal) svo þær segðu ekki opinberlega frá kynferðislegu sambandi þeirra við Trump. Það gerði hann í þágu Trump, til að freista þess að málin kæmu ekki upp á yfirborðið.

Cohen var líka dæmdur fyrir að svíkja undan skatti, fyrir ranga upplýsingagjöf til fjármálastofnana og fyrir að brjóta löggjöf um fjárframlög til kosningabaráttu.

Cohen var áður náinn samstarfsmaður Trumps, og hjálpaði honum meðal annars í kosningabaráttunni. Undanfarið hefur Trump hins vegar nýtt hvert tækifæri til að tala niður til Cohen.