Segja má að C5 X sé tilraun Citroen til að blanda saman skutbíl og jepplingi í lúxusútgáfu. Upphaflega var C5 stór fjölskyldubíll og við höfum líka séð C5 Aircross, en C5 X er einmitt byggður á sama EMP2-undirvagni og hann. Bíllinn er 4.805 mm að lengd svo að hann er aðeins lengri en Peugeot 508 SW til að mynda. Lögð er áhersla á gott rými í farþegarými og bíllinn mun geta tekið 545 lítra í farangursrými. Lögð er áhersla á þægindi með sérhönnuðum sætum og nýrri fjöðrun sem kallast Active Comfort og er fyrst kynnt í þessum bíl.

Bíllinn verður búinn 12 tommu upplýsingaskjá sem er ný hönnun frá Citroen og uppfærist þráðlaust. Sami tengiltvinnbúnaður og í C5 Aircross verður í bílnum, en sá er 222 hestöfl og með rafhlöðu sem kemur honum 50 km á hleðslunni. Von er á útgáfu með stærri rafhlöðu á seinni stigum. Bíllinn kemur í sölu í Frakklandi í lok árs og því er hans ekki að vænta hingað til lands fyrr en einhvern tímann á næsta ári.