Banda­ríska leyni­þjónustan CIA telur það ó­lík­legt að Rússar eða aðrar er­lendar ó­vina­þjóðir séu að baki dular­fullum veikindum sem hundruð starfs­manna banda­rísku utan­ríkis­þjónustunnar hafa upp­lifað eftir að hafa verið að störfum er­lendis. Þetta kemur fram í bráða­birgða­skýrslu rann­sóknar CIA sem birtist ný­lega.

Veikindin greindust fyrst í Banda­ríska sendi­ráðinu í Havana árið 2016 og eru því gjarnan kölluð „Havana heil­kennið“ en ein­kenni þeirra eru meðal annars þrá­látur haus­verkur, svimi, ó­gleði og heila­skaði.

Ýmsar kenningar hafa sprottið upp um upp­runa heil­kennisins og telja sumir að þau or­sakist af á­rásum and­stæðinga Banda­ríkjanna sem beini ör­bylgjum eða vopnum með stefnu­virka orku að sendi­ráðum Banda­ríkjanna.

CIA hefur rann­sakað málið undan­farin ár og telur leyni­þjónustan að veikindin séu ekki af­leiðing á­rása ó­vin­veittra þjóða en að sögn starfs­manns stofnunarinnar sem AP frétta­stofan ræddi við undir nafn­leynd eru þol­endur Havana heil­kennisins mjög ó­sáttir með niður­stöðurnar og saka CIA um að taka ekki mark á veikindum þeirra.

Mörg mál enn óleyst

Leyni­þjónustan hefur rann­sakað hundruð til­fella af Havana heil­kenni út um allan heim. Flest til­fellin tengjast undir­liggjandi sjúk­dómum eða ytri um­hverfis­þáttum, hjá sumum ein­stak­lingunum hafa til dæmis upp­götvast ó­greind heila­æxli eða bakteríu­sýkingar. En tugir til­fella eru þó ó­upp­lýst og enn til rann­sóknar.

„Sum af erfiðustu málunum eru enn ó­leyst. Við höfum hingað til ekki fundið neinar vís­bendingar um aðild er­lendra ríkja í neinu til­felli,“ segir ó­nafn­greindur aðili innan CIA en bætir þó við að hann geti ekki úti­lokað aðild er­lendra ríkja.

For­stjóri CIA, Willi­am Burns, segir leyni­þjónustuna vera með ein­beitta skuld­bindingu gagn­vart heilsu starfs­manna sinna.

„Þótt við séum komin með mikil­vægar bráða­birgða­niður­stöður þá er vinnunni ekki lokið. Við munum halda á­fram verk­efninu að rann­saka þessi til­felli og út­vega með­ferð á heims­mæli­kvarða fyrir þá sem þurfa á því að halda,“ segir í yfir­lýsingu frá Burns.

Vilja ekki vinna erlendis af ótta við veikindi

Að sögn Mark Zaida, lög­fræðings frá Was­hington sem fer með mál fimm­tán CIA liða sem hafa lent í Havana heil­kenninu, ríkis upp­lausnar­á­stand innan leyni­þjónustunnar á meðal starfs­manna sem vilja ekki taka þátt í verk­efnum í öðrum löndum af ótta við að veikjast. Þá segir Zaid birtingu bráða­birgða­skýrslunnar hafa verið „ó­þörf og ó­tíma­bær“.

Bæði Demó­kratar og Repúblikanar hafa þrýst á ríkis­stjórn Joe Bidens að komast að því hvað er að or­saka þessi dular­fullu veikindi og kallað eftir betri með­höndlun fyrir þol­endur heil­kennisins. For­setinn undir­ritaði frum­varp í fyrra sem ætlað er að út­vega betri læknis­þjónustu fyrir fórnar­lömb Havana heil­kennisins.

Þá lýsti utan­ríkis­ráð­herra Banda­ríkjanna, Ant­hony Blin­ken, því yfir á blaða­manna­fundi í gær að enginn vafi lægi á því að um væri að ræða raun­veru­leg veikindi og að ríkis­stjórnin myndi gera allt sem í þeirra valdi stendur til að komast til botns í málinu.

„Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur, með öllum þeim auð­lindum sem við höfum til að skipta til að komast að því, aftur, hvað gerðist, hvers vegna og hver gæti borðið á­byrgð á þessu. Við munum. Við munum leita allra leiða,“ sagði Blin­ken.