Bandaríska leyniþjónustan CIA telur það ólíklegt að Rússar eða aðrar erlendar óvinaþjóðir séu að baki dularfullum veikindum sem hundruð starfsmanna bandarísku utanríkisþjónustunnar hafa upplifað eftir að hafa verið að störfum erlendis. Þetta kemur fram í bráðabirgðaskýrslu rannsóknar CIA sem birtist nýlega.
Veikindin greindust fyrst í Bandaríska sendiráðinu í Havana árið 2016 og eru því gjarnan kölluð „Havana heilkennið“ en einkenni þeirra eru meðal annars þrálátur hausverkur, svimi, ógleði og heilaskaði.
Ýmsar kenningar hafa sprottið upp um uppruna heilkennisins og telja sumir að þau orsakist af árásum andstæðinga Bandaríkjanna sem beini örbylgjum eða vopnum með stefnuvirka orku að sendiráðum Bandaríkjanna.
CIA hefur rannsakað málið undanfarin ár og telur leyniþjónustan að veikindin séu ekki afleiðing árása óvinveittra þjóða en að sögn starfsmanns stofnunarinnar sem AP fréttastofan ræddi við undir nafnleynd eru þolendur Havana heilkennisins mjög ósáttir með niðurstöðurnar og saka CIA um að taka ekki mark á veikindum þeirra.
Mörg mál enn óleyst
Leyniþjónustan hefur rannsakað hundruð tilfella af Havana heilkenni út um allan heim. Flest tilfellin tengjast undirliggjandi sjúkdómum eða ytri umhverfisþáttum, hjá sumum einstaklingunum hafa til dæmis uppgötvast ógreind heilaæxli eða bakteríusýkingar. En tugir tilfella eru þó óupplýst og enn til rannsóknar.
„Sum af erfiðustu málunum eru enn óleyst. Við höfum hingað til ekki fundið neinar vísbendingar um aðild erlendra ríkja í neinu tilfelli,“ segir ónafngreindur aðili innan CIA en bætir þó við að hann geti ekki útilokað aðild erlendra ríkja.
Forstjóri CIA, William Burns, segir leyniþjónustuna vera með einbeitta skuldbindingu gagnvart heilsu starfsmanna sinna.
„Þótt við séum komin með mikilvægar bráðabirgðaniðurstöður þá er vinnunni ekki lokið. Við munum halda áfram verkefninu að rannsaka þessi tilfelli og útvega meðferð á heimsmælikvarða fyrir þá sem þurfa á því að halda,“ segir í yfirlýsingu frá Burns.
Vilja ekki vinna erlendis af ótta við veikindi
Að sögn Mark Zaida, lögfræðings frá Washington sem fer með mál fimmtán CIA liða sem hafa lent í Havana heilkenninu, ríkis upplausnarástand innan leyniþjónustunnar á meðal starfsmanna sem vilja ekki taka þátt í verkefnum í öðrum löndum af ótta við að veikjast. Þá segir Zaid birtingu bráðabirgðaskýrslunnar hafa verið „óþörf og ótímabær“.
Bæði Demókratar og Repúblikanar hafa þrýst á ríkisstjórn Joe Bidens að komast að því hvað er að orsaka þessi dularfullu veikindi og kallað eftir betri meðhöndlun fyrir þolendur heilkennisins. Forsetinn undirritaði frumvarp í fyrra sem ætlað er að útvega betri læknisþjónustu fyrir fórnarlömb Havana heilkennisins.
Þá lýsti utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Anthony Blinken, því yfir á blaðamannafundi í gær að enginn vafi lægi á því að um væri að ræða raunveruleg veikindi og að ríkisstjórnin myndi gera allt sem í þeirra valdi stendur til að komast til botns í málinu.
„Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur, með öllum þeim auðlindum sem við höfum til að skipta til að komast að því, aftur, hvað gerðist, hvers vegna og hver gæti borðið ábyrgð á þessu. Við munum. Við munum leita allra leiða,“ sagði Blinken.