Kanadamaðurinn Chris Koch var ekki í miklum vandræðum með að klára Reykjavíkurmaraþonið í dag. Hinn ótrúlegi Koch kom í mark eftir fjórar klukkustundir og 34 mínútur. Árangur hans er stórmerkilegur, ekki síst í ljósi þess að hann er bæði handa- og fótalaus.

Áður en hlaupið hófst ræddi hann við forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannesson. Hann hrósar forsetanum í hástert og þykir mikið til þess koma að Guðni skuli hafa hlaupið hálfmaraþon. Afrek og góðverk forsetans eru þó eflaust hætt að koma flestum Íslendingum á óvart. Sjálfur var Chris að ljúka sínu sjötta maraþoni.

Hægra megin hefur Chris fót sem hefur þroskast að hluta sem hann notar til að ýta sér áfram á bretti og notast hann við mokkasíu sem er með sérstökum botni.

Þegar Chris kom í heiminn ákvað fjölskylda hans strax í upphafi að meðhöndla fötlun hans ekki sem eitthvað neikvætt og falla í sorg. Þess í stað var hugarfar fjölskyldu hans þess eðlis að Chris yrði alinn upp líkt og um heilbrigðan einstakling væri að ræða, enda höfuðið í fullkomnu lagi. Chris var í viðtali við helgarblað Fréttablaðsins í dag.

Sjá einnig: Lætur ekkert stöðva sig

„Að hafa tækifæri til að ferðast um heiminn og hitta nýtt fólk og að láta ekkert standa í vegi fyrir því. Ég hef hitt frábært fólk í gegnum tíðina og það sem heillar mig og veitir mér innblástur er gæska fólks. Ég vil láta gott af mér leiða og vera góður við aðra. Ég tek þátt í þessu maraþoni og ögra mér í leiðinni. 

Kannski er það eitthvað sem getur veitt öðrum í svipaðri stöðu eða með einhvers konar fötlun innblástur og hvatningu til að gera slíkt hið sama. Þegar öllu er á botninn hvolft þá getum við gert allt sem við viljum með réttu hugarfari,“ sagði Chris sem heldur af landi brott á mánudag.