Banda­ríski lög­reglu­maðurinn Derek Chau­vin var rétt í þessu dæmdur sekur í öllum ákæruliðum fyrir að hafa orðið Geor­ge Floyd að bana í maí í fyrra. Kvið­dóm­endur lásu upp dóm sinn í réttar­sal í Minnea­polis nú rétt í þessu.

Kviðdómendurnir tólf meta Chauvin sekan fyrir morð af annarri gráðu, morð af þriðju gráðu og fyrir manndráp án ásetnings. Dómurinn var kveðinn upp nú skömmu fyrir klukkan 21:00 að íslenskum tíma.

Fram kemur í umfjöllun CNN að Chauvin verði nú færður í áframhaldandi gæsluvarðhald. Ákvörðun um þyngd refsingar verður tekin eftir átta vikur. Hann gæti átt yfir höfði sér allt að 75 ára fangelsi.

Réttar­höldin gegn Chau­vin hófust þann 29. mars síðast­liðinn en Chau­vin hafði verið á­kærður fyrir morð og mann­­dráp í þremur liðum þar sem að­­gerðir hans við hand­töku Floyd, þar sem Chau­vin kraup á hálsi Floyd í um níu mínútur, eru sagðar hafa leitt til dauða Floyd.

Tugir hafa borið vitni í réttar­höldunum sem hafa hel­­tekið Minnea­polis síðast­liðnar vikur en sak­­sóknarar kölluðu til 38 vitni í heildina á meðan lög­­menn Chau­vin kölluðu til sjö vitni honum til varnar. Sjálfur neitaði Chau­vin að bera vitni í málinu.