Carmen Jóhannsdóttir segir að henni hafi liðið ömurlega í marga mánuði eftir matarboðið með Jóni Baldvin Hannibalssyni. Aðalmeðferð í máli gegn Jóni Baldvin fer nú fram í Héraðsdómi Reykjavíkur. Jón Baldvin er ákærður fyrir kynferðislega áreitt Carmen með því að hafa strokið rass hennar ákaft í vitna viðurvist á Spáni í júní 2018. Carmen hafi verið í matarboði uppi á þaki ásamt Jóni Baldvin, eiginkonu hans Bryndísi Schram, Laufeyju móður sinni og annarri konu.

Jón Baldvin bar vitni á undan Carmen, hafnaði hann því að nokkuð hefði átt sér stað.

Carmen bar vitni frá Spáni í gegnum fjarfundabúnað. Hún sagði rúmar 20 mínútur eftir að þau byrjuðu að borða hafi hún staðið upp til að sækja meira vín sem hafi verið geymt upp við vegg.

„Ég sæki vínið, Jón Baldvin er þá vinstra megin við mig, ég fer hinum megin við hann að skenkja glösin, þá byrjar hann að strjúka á mér rassinn mjög ákaft,“ sagði Carmen. „Ég var í kjól, mér krossbregður og ég fer í algjört sjokk. Ég sest aftur niður og spyr þá móðir mín hvað sé að, ég kem ekki upp orði, og hún horfir á Jón Baldvin og segir: „Ég sá hvað gerðist, biddu dóttur mína afsökunar“. Hann segist ekki vita hvað hún sé að tala um, ég stend upp og fer niður í íbúðina.“

Carmen Jóhannsdóttir bar vitni í gegnum fjarfundabúnað.
Aðsend mynd.

Öskur og köll

Fyrsta sem hún hafi gert hafi verið að hringja í fyrrverandi kærasta sinn til að spyrja hvað hún ætti að gera hann hafi ráðlagt henni að fara. Hún og móðir hennar hafi svo farið.

„Við er um ekki komin nema 200 metra frá húsinu, þá heyrum við öskur og köll. Bryndís er að biðja mömmu um að hugsa sig um. Að vera ekki í fýlu, við ætlum að vera áfram að ræða málin. Það kom ekki til greina. Jón Baldvin stendur þarna við hlið konu sinnar og kallar og æpir á eftir okkur, að ef við förum með þetta í fjölmiðla ætli hann að lögsækja okkur, mig og móður mína.“

Þær hafi svo farið og leitað sér að hótelherbergi en endað hjá vini hennar.

Carmen segir að hennar fyrstu viðbrögð hafi verið að komast í burtu.

„Ég gat ekki hugsað mér að vera þarna lengur fyrir framan bæði konu hans, vinkonu og það var allt að fara í upplausn og mig langaði bara að komast í burtu frá þessu. Koma mér út. Það voru mín fyrstu viðbrögð.“

Leið illa í marga mánuði

Sækjandi spurði hana hvernig henni hafi liðið.

„Mér leið eins og einhver væri að nýta sér vald sitt gegn sér, að hafa vald yfir mér,“ sagði Carmen. „Fyrst var þetta sjokk og þetta var hálf ótrúlegt, maður varla trúði því að þetta hefði gerst. Við vorum þarna dauðþreyttar og fáum tölvupóst frá Bryndísi um nóttina með afsökunarbeiðni, að hún hafi verið miður sín og þætti þetta leitt. Nokkrum tímum síðar komu önnur samskipti fram að hún vildi slíta samskiptum og ekki vera áfram í sambandi. Allt í lagi, það var augljóst mál.“

Henni hafi liðið illa í langan tíma. „En tíminn eftir þetta … mér leið ömurlega í marga mánuði og ekki út af mér sjálfri, heldur vitandi til þess að það gætu verið aðrar manneskjur að lenda í þessu. Eftiráhyggja er mesta vanlíðan að vita ekki hvað ég ætti að gera, hvern ég ætti að tala við.“

Lögmaður Jóns Baldvins spurði Carmen ítarlega út í atvikið. „Ég stend upp, ég fer fyrir aftan Jón Baldvin, fyrir aftan hann upp við vegginn. Hægra megin við hann er vaskur sem er ekkert óvenjulega á þökum á Spáni. Þar geymdum við vínið eins og á aukaborði, ég næ í vínið og glösunum er stillt upp og ég er hella í öll glösin í einu, þetta var ekki eitt glas. Og þá byrjar Jón Baldvin að strjúka á mér rassinn.“

Carmen sagði að hann hefði strokið sér. „Upp og niður, einu sinni, mjög ákaft. Þetta stóð mjög stutt yfir,“ sagði hún. „Hann fór í klofið á mér.“