Sex manns sem voru ýmist gestgjafar eða gestir í matarboði á Spáni að loknum knattspyrnuleik Argentínu og Íslands árið 2018 komu saman fyrir framan dómara í dag til að bera vitni um ósæmilegt atvik sem á að hafa gerst í miðju boðinu.

Aðalmeðferð fór fram í máli héraðssaksóknara gegn Jóni Baldvini Hannibalssyni vegna meints kynferðislegrar áreitnis gegn Carmen Jóhannsdóttur á Spáni árið 2018. Jóni Baldvini er gefið að sök hafa strokið ákaft upp og niður eftir rassi Carmen.

„Þetta er búið að vera langt og sérstakt ferli,“ segir Carmen en hún bar vitni í gær í gegnum fjarfundarbúnað þar sem hún býr á Spáni.

Carmen segir að eftir framburð sinn í gær liði henni eins og þrjúhundruð kílóum hafi verið létt af henni. Sama hvernig úrskurðað verði í næsta mánuði sé þetta heilmikill sigur, bæði fyrir hana og aðra þolendur sem vilja skömminni til gerenda sinna.

„Það er svo stórt skref að fá þá viðurkenningu að málið mitt sé ekki grín sem eigi að sópa undir teppið,“ segir hún. Aðspurð segist hún hafa varið síðustu dögum í að lesa frásagnir annarra kvenna um Jón Baldvin á netinu og í fjölmiðlum.

„Ég viðurkenni að það var erfitt fyrir mig að lesa í gegnum þessar frásagnir því ég finn svo til með þessu fólki sem hefur ekki getað leitað réttar síns. Það eru ákveðin forréttindi að geta sótt hann til saka og leitað réttar míns.“

Aldís Schram, Margrét Schram, Elísabet Þorgeirsdóttir mættu í salinn til stuðnings Carmen.
Fréttablaðið/Anton Brink

„Ég sá að þú varst að káfa á henni“

Gestgjafarnir Jón Baldvin og Bryndís Schram, eiginkona hans, lýstu atvikinu á Spáni þannig að Laufey Ósk Arnórsdóttir, móðir Carmenar, hafi upp úr þurru sakað Jón Baldvin um að hafa káfað á dóttur sinni. Var þetta rétt eftir að matur var borinn á borð að lokinni ræðu frá Bryndísi þar sem hún var að bjóða gesti sína velkomna á heimili þeirra hjónanna. Bryndís þverneitaði að Jón hafi þuklað á Carmen. Hún hafi verið í sjónlínu við þau við matarborðið og hefði að eigin sögn getað séð allt. Hugrún, sem segist hafa þekkt hjónin frá árinu 2003, tók undir með lýsingu þeirra og sagðist ekki hafa séð neitt. Þau gáfu í skyn að Laufey hefði ekki verið í góðu ástandi vegna lyfjanotkunar og víndrykkju og að allt athæfið virtist hafa verið sett á svið til að eyðileggja mannorð Jón Baldvins.

Brotaþolinn Carmen og móðir hennar Laufey lýsa þessu öðruvísi. Búið var að leggja á borðið og stóð Carmen upp til að skenkja í öll vínglösin sem voru á borðinu við hægri hönd Jóns Baldvins. Á meðan Carmen hellti í glösin hafi Jón Baldvin rennt hendinni ákaft upp og niður eftir rassi Carmen og að klofinu á henni. Laufey segist hafa orðið vitni að þessu og hafi þá sagt: „Jón Baldvin. Þú verður að biðja dóttur mína afsökunar. Ég sá að þú varst að káfa á henni.“ Við það leystist upp boðið og mæðgurnar yfirgáfu heimili hjónanna.

Carmen Jóhannsdóttir.
Mynd: Aðsend

Sækjandinn Dröfn Kærnsted og verjandinn Vilhjálmur H. Vilhjálmsson reifuðu máli og spurðu vitnin spjörunum úr um sætaskipan í boðinu til að skera úr um hver hafi verið í sjónarlínu við meint atvik og hvort glösin á borðinu hafi verið þannig staðsett að Carmen hafi þurft að koma við hægri hlið Jóns Baldvins við að skenkja í þau.

Aðspurð um lýsingar Jóns, Bryndísar og Hugrúnar segir Carmen: „Það er að mínu mati ótrúlegt að reyna að halda því fram að einhver hafi þolinmæði, áhuga og tíma til að standa í einhverju svona rugli.“

„Ég var gagnrýnd fyrir að stíga fram, ég var gagnrýnd fyrir að kæra ekki, svo kæri ég og er gagnrýnd fyrir að kæra.“

Allir eldri menn minntu hana á Jón Baldvin

Segir Carmen erfiðasta hlutann við allt ferlið hafa verið að snúa aftur í heimabæ sinn. Segir hún alla eldri menn sem hún mætti hafa minnt sig á Jón Baldvin.

„Í tvær vikur eftir þetta var hver einasti eldri maður Jón Baldvin. Þarna viðurkenndi ég fyrir sjálfri mér hversu mikið áfall þetta var því þetta var svo mikil valdbeiting. Skömmin var svo djúp að hann hafi gert þetta fyrir framan allar þessar konur, mömmu mína og vinkonu þeirra. Þegar hann gerði þetta í boðinu hugsaði ég: Á ég bara að sitja þarna?“ lýsir Carmen.

Jón Baldvin ásamt verjanda sínum Vilhjálmi H. Vilhjálmssyni.
Fréttablaðið/Anton Brink

Gagnrýnd fyrir allt

Aðspurð um #Metoo umræðuna segir Carmen að fólk sé meira opið þó gagnrýnin sé enn hörð gagnvart þolendum.

„Umræðan er klárlega meira opin síðan þá. En auðvitað eru alltaf þeir sem gagnrýna það að fólk stigi fram. Ég var gagnrýnd fyrir að stíga fram, ég var gagnrýnd fyrir að kæra ekki, svo kæri ég og er gagnrýnd fyrir að kæra.“

Segir hún almennt eldri kynslóðina sína sér þakklæti og virðingu fyrir að stíga fram þar sem margar eldri konur telji sig ekki geta það sjálfar.

„Þetta er ekki auðvelt, ég tek hattinn ofan fyrir alla þá sem segja frá. Ég hugsa bara mörgum sinnum að ég skil svo vel að fólk stigi ekki fram.“

Telur hún sig heppna að hafa búið á Spáni meðan umræðan um frásögn hennar var í hæstu hæðum.

„Ég tel mig heppna að hafa ekki verið á Íslandi því hér á Spáni þekkir mig enginn og ég fékk mitt pláss til að vinna mig í gegnum þetta.“