Björn Snæ­björns­son, for­maður Starfs­greina­sam­bandsins (SGS) og stéttar­fé­lagsins Einingar-Iðju, furðar sig á því að Ást­hildur Sturlu­dóttir, bæjar­stjóri á Akur­eyri, skuli gefa sér það að starfs­menn Öldrunar­heimila Akur­eyrar verði á lægri launum hjá Heilsu­vernd en hjá bænum sjálfum. Heilsu­vernd tekur við rekstri heimilanna af Akureyrarbæ á verka­lýðs­deginum sjálfum, 1. maí, eftir að hafa náð samningi við ríkið fyrr í mánuðinum.

Boðar lægri laun á nýjum samningum


Ást­hildur sagði í sam­tali við norð­lenska miðilinn N4 í dag að það fólk sem yrði ráðið til starfa á Öldrunar­heimilunum, eftir að Heilsu­vernd tæki við rekstrinum, yrði á öðrum kjara­samningum en þeir sem starfa þar nú. Hún virtist þá gera fast­lega ráð fyrir að kjör þeirra samninga yrðu bágari:

„Það er ljóst að launin hjá sveitar­fé­lögunum eru um­tals­vert hærri en hjá öðrum fyrir­tækjum í vel­ferðar­þjónustu. Starfs­fólkið sem er hjá Akur­eyrar­bæ nú þegar mun færast yfir á sömu kjör og eru í dag, þar til nýir kjara­samningar verða gerðir. Starfs­manna­veltan er mikil og nýtt starfs­fólk fer á nýja kjara­samninga þegar það er ráðið til starfa. Kostnaðurinn við reksturinn lækkar því mjög fljót­lega, þegar nýtt fólk er ráðið inn á öðrum kjara­samningum,“ sagði Ást­hildur.

Ást­hildur Sturlu­dóttir, bæjar­stjóri á Akur­eyri.

Ljóst er að þeir starfs­menn sem starfa þar nú þegar munu halda sínum kjörum, sem eru bundin í samning sem SGS gerði við Sam­band ís­lenskra sveitar­fé­lag í fyrra, út sitt samnings­tíma­bil. Aðrir sem verða ráðnir inn munu ekki starfa eftir þeim kjara­samningum, heldur verður Heilsu­vernd að gera nýja samninga við stéttar­fé­lög starfs­manna sinna. Þær við­ræður eru ekki hafnar og því finnst Birni undar­legt að Ást­hildur gefi sér að launin verði lægri.

Hart að bærinn vilji einkavæða til að lækka laun

„Heilsuvernd hefur ekki enn haft sam­band við okkur,“ segir Björn, for­maður Einingar-Iðju við Frétta­blaðið en ríf­lega helmingur starfs­manna Öldrunar­heimila Akureyrar er í Einingu-Iðju. Heilsuvernd tekur við rekstirnum eftir þrjá daga.

Honum finnst skrýtið að bæjar­stjórinn hafi gefið sér að kjör nýju samninganna við Heilsuvernd verði verri en þau kjör sem stéttar­fé­lagið samdi um við sveitar­fé­lögin. „Okkur finnst það hel­víti hart að Akur­eyrar­bær sé að segja þessu upp [rekstri Öldrunar­heimilanna] og gera þetta einka­vætt til að hægt sé að lækka launin hjá starfs­fólkinu,“ segir Björn.

Björn Snæbjörnsson, formaður stéttarfélagsins Einingar-Iðju, er sitjandi formaður Starfsgreinasambands Íslands.
Fréttablaðið/Eyþór

„Ég er ekki að gera henni upp þá meiningu en þetta kom svoldið þannig út hjá henni í við­talinu og mér líkaði ekki tónninn í bæjar­stjóranum.“

Skrýtið að heilbrigðisráðherra VG einkavæði

Hann segir þetta hafa verið vanda­mál víða annars staðar um landið þar sem einka­rekin fyrir­tæki hafa tekið við rekstri hjúkrunar­heimila af sveitar­fé­lögunum. Þar hafi fyrirtækin gjarnan miðað við kjara­samninga á höfuð­borgar­svæðinu, sem stéttarfélögin þar gera sjálf en ekki SGS, en á þeim fær fólk nokkuð lægri laun en á samningum SGS.

„Við viljum alls ekki að það gerist hér. Vinnu­staðurinn er mjög stór hér á Akur­eyri og þetta myndi líka þýða bara lægri meðal­laun á svæðinu. Að það sé eitt­hvað sem Akur­eyrar­bær geti sætt sig við skil ég ekki. Ég vil frekar að bærinn berjist gegn því,“ segir Björn.

Honum finnst þá ekki síst undar­legt að rekstur í heil­brigðis­þjónustu sé að færast frá hinu opin­bera og til einka­væddra fyrir­tækja á vakt Vinstri grænna í ríkis­stjórn, sem hafa talað gegn þeirri þróun í gegnum árin. „Það er svo­lítið skondið að það sé ráð­herra úr Vinstri grænum sem skuli standa fyrir þessari einka­væðingu. Mér finnst það mjög skrýtið.“