Víðir Reynis­son, yfir­lög­reglu­þjónn al­manna­varna­sviðs ríkis­lög­reglu­stjóra, segir hóp­sýkingu á leik­skólanum Jörfa boða fleiri smit. Í dag greindust þrettán manns með Co­vid-19 innan­lands þar af voru að­eins fimm í sótt­kví.

Þar með er þó ekki öll sagan sögð. „Það eru nánast allir þessir þrettán utan sótt­kvíar má segja,“ út­skýrir Víðir. Þau smituðu hafi verið svo stutt í sótt­kví að allir sem þau hafa um­gengst síðustu daga eru út­settir fyrir smiti.

„Sá sem var styst í sótt­kví var bara búin að vera í klukku­tíma og hafði fengið til­kynningu um sótt­kví rétt eftir sýna­töku og reyndist síðar já­kvæður.“ Það sé því ljóst að fjöl­margir munu þurfa að sæta sótt­kví í tengslum við þá aðila sem þó voru í sótt­kví við greiningu.

Býst við hærri tölum

Af þeim þrettán sem greindust tengdust tíu leik­skólanum Jörfa. „Við erum að fást við hóp­sýkingu sem kristallast svo­lítið í kringum leik­skólann Jörfa og þar hafa margir starfs­menn greinst núna og stór hópur þarf að fara í skimun í dag.“ Þar er um að ræða um 130 manns, þar af 33 starfs­menn og hundrað börn sem öll eru í sótt­kví.

„Við erum ekki komin með niður­stöður frá öllum starfs­mönnum leik­skólans,“ segir Víðir. Það sé því veru­lega lík­legt að fjöldi smita muni hækka næstu daga. „Miðað við þann fjölda barna og full­orðna sem fer í skimun í dag þá kæmi mér veru­lega á ó­vart ef við fengjum ekki dá­lítið af tölum í dag.“

Hópur þeirra sem þarf að sæta sótt­kví mun einnig stækka veru­lega. „Eins og fólk getur í­myndað sér þá eru leik­skóla­börn ekki ein í sótt­kví þannig að það er tölu­verður fjöldi af for­eldrum að fara líka í sótt­kví þannig.“

Nýjar reglur Al­manna­varna hafa nú tekið gildi en þar kemur fram að allir sem dvelja á sama heimili skulu vera saman í sótt­kví. „Það er ekki eins og var að annað for­eldri gat verið í sótt­kví og hitt for­eldrið farið inn og út eins og hentaði, nú eru bara allir heimilis­menn í sótt­kví.“ Sé staðan sú að íbúi heimilis geti af ein­hverjum á­stæðum ekki farið í sótt­kví verði sá ein­stak­lingur að fara út af heimilinu.

Allir í skimun

„Sterku skila­boð dagsins eru að ef þú ert með minnstu ein­kenni, farðu í sýna­töku, ekki hika við það og ekki vera að fara í vinnuna með ein­kenni,“ segir Víðir á­kveðinn. Al­manna­varnir hafa nú sett upp sér­stakan hnapp á heilsu­veru.is þar sem allir þeir sem tengjast leik­skólanum Jörfa með ó­beinum hætti geta skráð sig í sýna­töku í dag.

„Við erum bæði að hvetja þau sem hafa um­gengst fólk í leik­skólanum til að koma og þau sem búa í næsta ná­grenni eða í húsi sem eru með sam­eigin­legan inn­gang með þeim sem eru tengdir leik­skólanum og annað slíkt.“ Mikil­vægt sé að fólk sé vakandi og reyni að komast í sýna­töku.

„Öflugasta vopnið okkar í dag er að fá sem flesta í skimun.“ Hafi fólk farið í sýna­töku og fengið nei­kvæða niður­stöðu og síðan orðið veikt í þrjá, fjóra daga þá ætti það að fara aftur í sýna­töku að sögn Víðis.

Of snemmt til að herða reglurnar

Víðir segir enn of snemmt að segja til um hvort sótt­varna­reglum verði breytt á nýjan leik. „Það er ekki til um­ræðu enn þá. í þessu til­viki sé um að ræða af­markaða starf­semi sem var innan gildandi sótt­varna­reglna.“

Nauð­syn­legt sé að sjá hvernig hlutirnir þróast í kvöld og taka á­kvörðun um hvort breyta þurfi reglum, sem tóku gildi síðast­liðinn fimmtu­dag, á ný í þessari viku. „Við höfum séð svona hóp­smit nokkrum sinnum og erum búin að fá á­kveðna reynslu hvernig okkur tekst að ná utan um það ef allir spila með sem eru þarna. Nú er bara að sjá hvernig þetta þróast.“