Guðmundur Arnar Sigmundsson, forstöðumaður netöryggissveitar Certic á Fjarskiptastofu segir líklegt að netárásin á fjármálainnviði hér á land á laugardag sé undirbúningur fyrir aðra og stærri árás á næstu dögum eða vikum.

Árásin á laugardag varð til þess að fólk gat ekki greitt fyrir vörur og þjónustu með kortum sínum og símum í um klukkustund sem í mörgum tilvikum olli uppnámi í fjölda verslana, matsölustaða og menningarhúsum.

Enn hefur enginn lýst ábyrgð á hendur sér vegna netárásarinnar, ellegar krafið þau fyrirtæki sem árásin beindist að um greiðslur til að komast hjá enn frekari árásum.

Guðmundur Arnar segir þá staðreynd minna á vanalegt ferli netafbrotamanna sem reyni gjarnan fyrst fyrir sér með afmörkuðum netárásum og þegar í ljós komi að þær virki reiði þeir aftur til höggs – og þá með greiðslukröfu.

Af þessum sökum hvetur Guðmundur Arnar fyrirtæki á sviði viðkvæmra innviða hér á landi, svo sem í fjarskiptum, fjármálum, orkugeiranum, heilbrigðisþjónustu og menntamálum að tryggja varnir sínar eins og frekast er kostur og ráða til sín sérfræðinga til að fara yfir gæði þeirra og viðbragð.

Hann segir að þúsundir netárása séu gerðar á fyrirtæki og stofnanir hér á landi á hverju ári og netvarnir stöðvi langflestar þeirra. En menn verði að halda vöku sinni.