„Þetta er að ganga nokkuð vel. Það fá allir þak yfir höfuðið og ríkið sér fólki fyrir hús­næði til skamms tíma.“

Þetta segir Gylfi Þór Þor­steins­son, að­­gerðar­­stjóri yfir mót­töku Úkraínu­manna, en að hans sögn hafa yfir 400 flótta­menn komið hingað til lands í nóvember. Um helmingur þeirra er frá Úkraínu.

„Öflun skamm­tíma­hús­næðis gengur á­gæt­lega. Við erum að missa út nokkur hús núna í lok árs, meðal annars Hótel Saga. Við erum að reyna finna hús­næði sem kæmi í stað þeirra og það hefur gengið vel,“ segir Gylfi.

Gylfi segir að skamm­tíma­hús­næðin sem út­veguð eru fyrir þá sem sækja um al­þjóð­lega vernd hér á landi séu stað­sett á höfuð­borgar­svæðinu, þar sem úr­vinnsla um­sókna þeirra fer fram.

„Eftir að fólk fær verndina, þá erum við með hús­næði utan höfuð­borgar­svæðisins, til að mynda í Vest­manna­eyjum og Bif­röst. Þar væri fólk til lengri tíma og borgar leiguna sjálf,“ segir Gylfi.

Í októ­ber opnaði fjölda­hjálpar­stöð fyrir um­sækj­endur um al­þjóð­lega vernd, en Gylfi sagði þá að það hafi verið mikil­vægt vegna þeirra stöðu sem væri kominn upp í hús­næðis­málum flótta­fólks.

„Fjölda­hjálpar­stöðin er enn starfandi og við munum efla hlut­verk hennar svo­lítið. Þeir sem sækja um vernd hér á landi, þeir munu allir byrja þar fyrstu nóttina hér á landi áður en þeir fara í önnur úr­ræði. En hingað til hefur enginn þurft að vera þar lengur en í þrjár nætur og við stefnum að því að engin verði lengur en þrjár nætur,“ segir Gylfi.

Gylfi segir að árið 2022 hafi verið stórt þegar kemur að mót­töku flótta­manna, en hann býst enn fleira fólki á næsta ári.

„Við búumst við því að næsta ár verði stórt þegar kemur að komu flótta­manna hingað til landsins. Þær að­gerðir sem við höfum farið í á þessu ári hafa gengið vel á allan hátt, en við þurfum að hætta að vinna þetta sem eitt­hvað átak sem er neyðar­á­stand, heldur vinna þetta sem al­mennt á­stand,“ segir Gylfi.

„Einnig þurfum við að fara skoða málin til lengri tíma, til dæmis varðandi hús­næði og hvaða leiðir eru færar í þessum skamm­tíma­úr­ræðum sem við höfum verið að leigja. Það er mögu­leiki að taka inn notkun önnur úr­ræða, sem við værum að horfa til fram­tíðar með,“ segir Gylfi.