„Þetta er að ganga nokkuð vel. Það fá allir þak yfir höfuðið og ríkið sér fólki fyrir húsnæði til skamms tíma.“
Þetta segir Gylfi Þór Þorsteinsson, aðgerðarstjóri yfir móttöku Úkraínumanna, en að hans sögn hafa yfir 400 flóttamenn komið hingað til lands í nóvember. Um helmingur þeirra er frá Úkraínu.
„Öflun skammtímahúsnæðis gengur ágætlega. Við erum að missa út nokkur hús núna í lok árs, meðal annars Hótel Saga. Við erum að reyna finna húsnæði sem kæmi í stað þeirra og það hefur gengið vel,“ segir Gylfi.
Gylfi segir að skammtímahúsnæðin sem útveguð eru fyrir þá sem sækja um alþjóðlega vernd hér á landi séu staðsett á höfuðborgarsvæðinu, þar sem úrvinnsla umsókna þeirra fer fram.
„Eftir að fólk fær verndina, þá erum við með húsnæði utan höfuðborgarsvæðisins, til að mynda í Vestmannaeyjum og Bifröst. Þar væri fólk til lengri tíma og borgar leiguna sjálf,“ segir Gylfi.
Í október opnaði fjöldahjálparstöð fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd, en Gylfi sagði þá að það hafi verið mikilvægt vegna þeirra stöðu sem væri kominn upp í húsnæðismálum flóttafólks.
„Fjöldahjálparstöðin er enn starfandi og við munum efla hlutverk hennar svolítið. Þeir sem sækja um vernd hér á landi, þeir munu allir byrja þar fyrstu nóttina hér á landi áður en þeir fara í önnur úrræði. En hingað til hefur enginn þurft að vera þar lengur en í þrjár nætur og við stefnum að því að engin verði lengur en þrjár nætur,“ segir Gylfi.
Gylfi segir að árið 2022 hafi verið stórt þegar kemur að móttöku flóttamanna, en hann býst enn fleira fólki á næsta ári.
„Við búumst við því að næsta ár verði stórt þegar kemur að komu flóttamanna hingað til landsins. Þær aðgerðir sem við höfum farið í á þessu ári hafa gengið vel á allan hátt, en við þurfum að hætta að vinna þetta sem eitthvað átak sem er neyðarástand, heldur vinna þetta sem almennt ástand,“ segir Gylfi.
„Einnig þurfum við að fara skoða málin til lengri tíma, til dæmis varðandi húsnæði og hvaða leiðir eru færar í þessum skammtímaúrræðum sem við höfum verið að leigja. Það er möguleiki að taka inn notkun önnur úrræða, sem við værum að horfa til framtíðar með,“ segir Gylfi.