Út­lit er fyrir erfiðan vetur í ferða­þjónustu hér á landi vegna heims­far­aldursins. Lík­legt þykir að er­lendir ferða­menn verði tals­vert færri í ár en spáð var fyrir um. Þetta kemur fram sam­tali Jóhannes Þórs Skúla­son, fram­kvæmda­stjóra Sam­taka ferða­þjónustunnar, við Morgun­blaðið.

Í upp­hafi sumars hafi spár gert ráð fyrir 600 til 900 þúsund ferða­mönnum í ár sam­kvæmt greiningum bankanna og Ferða­mála­stofu en ljóst sé að þeir verði nær 600 þúsund.

Á­kvörðun Sótt­varnar­stofnun Banda­ríkjanna um að setja Ís­land á hæsta hættu­stig stofnunarinnar í ágúst og um leið ráða banda­rískum ferða­mönnum frá því að ferðast hingað til lands hafi haft merkjan­leg á­hrif á ferða­þjónustu, sér­stak­lega í núna í septem­ber að því er fram kemur.

Jóhannes segir erfitt að meta mann­afla­þörf ferða­þjónustunnar í vetur. Hann reiknar með að hún fari minnkandi og bendir á að á­kveðnir hópar sem hafa verið ferða­þjónustunni mikil­vægir muni ekki berast til landsins í sama mæli og áður. Í því sam­hengi nefnir hann ferða­menn frá Bret­landi og Asíu sem hafa verið að koma í stórum hópum á haustin og í kringum jól og ára­mót.

Það sé því við­búið að veturinn verði erfiður og mikil­vægt sé að stjórn­völd bregðist við því með við­eig­andi að­gerðum.