Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela, segist ekki eiga von á því að fyrirhugað verkfall meðlima Eflingar sem vinna hjá hótelunum, verði samþykkt í atkvæðagreiðslu sem stendur nú yfir. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, er á öndverðum meiði við hann.

„Við erum búin að funda með fólkinu okkar og það er búið að fara yfir báðar hliðar málsins, hluti sem ekki var búið að fara yfir á fundinum með Eflingu,“ segir Davíð. „En það er alveg ljóst að ef Eflingarfólki hefði verið leyft að kjósa um samning Starfsgreinasambandsins, sem auðvitað hefði verið réttast, þá hefði fólkið mitt klárlega verið kosið með þeim samningi.“

„Það vill enginn fara í verkfall og fólkið okkar langar ekki í verkfall,“ bætir Davíð við. „En þegar málflutningurinn er þannig að spurt er hvort maður vill fá 50.000 kr. launahækkun eða 70.000 kr. launahækkun, þá er þetta auðvitað einfalt svar.“

Það er mjög skrýtið hve lágt menn eru tilbúnir að leggjast í að ráðast gegn samninganefnd Eflingar, Eflingu og þeim samskiptum sem við eigum við félagsfólk.

Davíð segir að Efling hafi haldið eftir nauðsynlegum upplýsingum til þess að starfsfólk Íslandshótela geti tekið upplýsta ákvörðun um verkfall og nefnir meðal annars það að afturvirkni kjarasamnings SGS muni falla niður ef verkfall verður samþykkt. Þá muni greiðslur úr verkfallssjóði Eflingar ekki jafnast á við laun frá Íslandshótelum og því verði að sögn Davíðs um skerðingar að ræða.

Áhersla hafi verið lögð á að miðla réttum upplýsingum

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, er ósammála Davíð um að enginn vilji fara í verkfall. „Það stangast gersamlega á við okkar upplifun, okkar samtöl og okkar samskipti við félagsfólk Eflingar.“

Sólveig þvertekur jafnframt fyrir að félagið hafi haldið eftir neinum nauðsynlegum upplýsingum í samskiptum sínum við starfsfólk Íslandshótela. „Það er mjög skrýtið hve lágt menn eru tilbúnir að leggjast í að ráðast gegn samninganefnd Eflingar, Eflingu og þeim samskiptum sem við eigum við félagsfólk,“ segir hún. „Að sjálfsögðu er það ekki svo að við séum að færa félagsfólki rangar upplýsingar. Allt sem samninganefndin hefur gert í þessari lotu hefur verið gert fyrir opnum tjöldum. Við höfum lagt metnað í það að miðla upplýsingum hratt og örugglega til okkar félagsfólks.“

Sólveig segir að það séu Íslandshótel og Samtök atvinnulífsins sem hafi stillt samningunum upp á villandi hátt og drap þar sérstaklega á möguleikanum á að afturvirkni SGS-samninga verði felld niður. „Eru ekki þeir og Samtök atvinnulífsins ekki að setja þetta fram með þeim hætti? Eru það ekki akkúrat þeir sem eru að stilla þessu upp með þeim hætti að ef starfsfólk Eflingar fallist ekki á að taka við kjarasamningi Starfsgreinasambandsins þrátt fyrir að hann henti okkur ekki, þrátt fyrir að hann komi illa út fyrir Eflingarfólk, að þá verði afturvirknin höfð af fólki?“

„Eru það ekki þeir sem gerast ítrekað sekir um það að fara ekki bara fram með villandi upplýsingar heldur með hótunum og ofríki?“ heldur Sólveig áfram. „Það höfum við sannarlega ekki gert, heldur leggjum við áherslu á að miðla réttum upplýsingum til félagsfólks, sérstaklega þegar um svo erfitt mál og erfiðar kjaradeilur er að ræða.“

Atkvæðagreiðslu Eflingarfólks um það hvort efnt verði til verkfalls lýkur á mánudaginn. Sólveig býst við því að niðurstöður liggi fyrir stuttu síðar þar sem aðallega sé um rafræna kosningu að ræða.

Í kjölfar samtals síns við Fréttablaðið tjáði Sólveig sig frekar um orðræðuna í tengslum við kosninguna um verkfallið í færslu á Facebook-síðu sinni sem lesa má hér að neðan.