Nóbels­verð­launa­hafinn Michael Levitt telur að Banda­ríkin muni ná tökum á kóróna­far­aldrinum fljótt og örugg­lega.

Levitt, sem hlaut Nóbels­verð­laun í efna­fræði árið 2013, ræddi stöðuna í við­tali við frétta­stofu Los Angeles Times á dögunum. Ó­hætt er að segja að spár hans stangist veru­lega á við svart­sýnustu spár heil­brigðis­yfir­valda þar í landi.

„Það sem við þurfum að gera er að halda ró okkar, þetta verður allt í lagi,“ segir Levitt og leggur á­herslu á að fólk haldi fjar­lægð sín á milli. „Þetta er ekki rétti tíminn til að fara út að skemmta sér með fé­lögunum,“ bætir hann við.

Hann hefur ekki trú á að á­standið í Banda­ríkjunum verði neitt í líkingu við það sem gerst hefur í Kína, Ítalíu og Íran. Þar segir hann að mestu muni um að sam­komu­bönn geti orðið mun á­hrifa­ríkari lausn í Banda­ríkjunum.

Levitt, sem starfar sem líf­eðlis­fræðingur við Stand­ford há­skólann, hefur áður reynst sann­spár um fram­vindu kóróna­far­aldurs. Í febrúar síðast­liðnum spáði hann að hægja myndi á út­breiðslu veirunnar í Kína; að um miðjan mars yrði heildar­fjöldi skráðra til­fella þar 80.000 og dauðs­föll 3.250. Það reyndist mjög nærri lagi því þann 16 mars voru til­felli í Kína orðin 80.298 og dauðs­föll 3.245.