Einn fjórmenninganna sem var handtekinn í Vogahverfi í Reykjavík í morgun hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna til föstudagsins 15. mars en þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu. 

Áður hefur komið fram að mennirnir fjórir hafi verið í annarlegu ástandi í morgun þegar þeir voru handteknir en umræddur sakborningur er sá sem hleypti af skotunum sem höfnuðu í tveimur bílum sem stóðu fyrir utan húsið, sem staðsett er í Súðarvogi. 

Mennirnir hafa áður komið við sögu lögreglu og þykir mildi að enginn hafi slasast í morgun en Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn staðfesti fyrr í kvöld í samtali við Fréttablaðið að mennirnir hefðu verið yfirheyrðir í dag.