Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu mun að öllum líkindum fara fram á gæsluvarðhald yfir einum þeirra fjögurra manna sem handteknir voru í dag í Vogahverfinu í morgun vegna tilkynningar um skothvelli en þetta staðfestir Jónann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í samtali við Fréttablaðið. Líkt og fram hefur komið lagði lögreglan hald á skotvopn auk nokkurra skothylkja eftir að tilkynningin barst klukkan 6:20 í morgun.

Jóhann segir að ákvörðun um það verði tekin nú á sjötta tímanum. Talið er að aðeins einn hafi hleypt af skoti en mennirnir fjórir voru hins vegar í annarlegu ástandi og þvi allir handteknir og voru þeir yfirheyrðir nú síðdegis.

Mennirnir hafa áður komið við sögu lögreglu en byssukúlurnar höfnuðu í tveimur bílum sem stóðu fyrir utan húsið, sem er í Súðarvogi og þykir mildi að ekki hafi farið verr.