Karlmaður á sjötugsaldri sem skaut á tvær bifreiðar í Miðvangi í Hafnarfirði í gærmorgun hefur verið úrskurðaður til að sæta vistun á viðeigandi stofnun.

Úrskurðað var yfir manninum í Héraðsdómi Reykjaness í morgun.

Ekki sást til mannsins í héraðsdómi í morgun þar sem lögreglan fór með hann í gegnum bílagleymslu og bakdyramegin.

Skaut á tvær bifreiðar

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning á áttunda tímanum í gærmorgun um að skotið hefði verið á bifreið fyrir aftan verslun Nettó í Miðvangi í Hafnarfirði.

Mikill viðbúnaður lögreglu og sérsveitarinnar var á svæðinu sem var allt afgirt en umsátur lögreglunnar stóð yfir í rúmar fjórar klukkustundir áður en maðurinn gaf sig sjálfviljugur fram um tuttugu mínútur yfir tólf í hádeginu í gær.

Mikið mildi þykir að ekki fór verr en maður og sex ára sonur hans voru í annarri bifreiðinni sem skotið var á.

Dróni og vélmenni

Lögregla og sérsveit notaðist meðal annars við dróna og vélmenni við umsátrið í gær en reynt var að semja við manninn í rúmar fjórar klukkustundir áður en hann loks kom út úr íbúð sinni í Miðvangi 41.

Leikskóli er fyrir aftan fjölbýlishúsið og voru 17 börn og 21 starfsmaður mætt þegar skotárásin átti sér stað og var leikskólanum lokað. Þau börn og starfsmenn sem voru mætt var haldið inni í leikskólanum enda mátti enginn vera á ferð í hverfinu.

Skyttur sérsveitarinnar höfðu komið sér fyrir í skotstöðu fyrir aftan bíla sína á meðan samningaviðræður við manninn fóru fram og sagði Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, í samtali við fjölmiðla við Miðvang í gær að öll skotlína við íbúð mannsins væri tryggð.

Íbúar fastir innandyra

Íbúum hússins var gert að halda sig innandyra á meðan umsátrið stóð yfir og var mörgum þeirra mjög brugðið vegna málsins.

Samkvæmt upplýsingum frá húsverði Miðvangs 41 voru engar sjáanlegar skemmdir á húsinu vegna atviksins í gær þar sem maðurinn kom sjálfviljugur út úr íbúð sinni um hádegisbil í gær.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu er rannsókn málsins á frumstigi.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Maðurinn var leiddur fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjaness í morgun.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari