Maðurinn sem lögregla skautí kviðinn á Egilsstöðum í gærkvöldi eftir að hann hóf skothríð á íbúðarhús var þangað kominn til að eiga orð við barnsföður kærustu sinnar. Var greint frá þessu í frétt á Vísi, sem segir fréttastofu sína hafa heimildir fyrir því.

Atburðarásin var með því móti að maður skaut með loftbyssu á hús á Egilsstöðum í um hálftíma áður en lögregla mætti á staðinn. Lögreglunni barst tilkynning um framgöngu mannsins í kringum klukkan tíu. Þegar hún mætti á vettvang var hann staddur inni í húsi þar sem skothvellir heyrðust og um klukkustund síðar hafi hann komið út og skotið að lögreglunni. Lögreglan skaut hann í kviðinn og var hann í kjölfarið fluttur til Reykjavíkur með sjúkraþyrlu. Staðfest hefur verið að byssumaðurinn lifði skotið af og að engir lögreglumenn særðust.

Málið er komið á borð héraðssaksóknara, en starfsmenn embættisins flugu ásamt tæknideild lögreglunnar til Egilsstaða strax í gærkvöldi.