Kira Rudik hefur setið á þingi í Úkraínu frá árinu 2019. Hún er 38 ára og fer fyrir stjórnarandstöðuflokknum Voice sem kennir sig við frjálslyndi og lýðræði.

Hún er stödd hér á landi meðal annars til að vekja athygli á aðstæðum í heimalandinu og ræða við úkraínska flóttamenn.

Nú þegar hálft ár er liðið frá innrás Rússa í Úkraínu segir Kira að komið sé að ákveðnum vendipunkti.

„Ástandið er erfitt en við munum á endanum ná aftur stjórn á eigin landi. Ég er handviss um það.“

Þrátt fyrir bjartsýnina segir Kira að búast megi við erfiðum vetri í Úkraínu.

„Við vitum að orkukreppan mun bitna á okkur. Við vitum líka að Rússar munu beita lönd sem styðja okkur þrýstingi. Þetta stríð snýst nefnilega ekki bara um átök á milli Rússlands og Úkraínu. Þetta eru átök um ákveðin sameiginleg gildi. Þar sem lýðræðislegar hugsjónir mæta grimmd og harðstjórn. Það eru hinar raunverulegu átakalínur.“

Hún segir erfitt að færa ástandið í Úkraínu í orð.

„Það er ekki til sá skóli í heiminum sem getur búið þig undir stríð. Maður vaknar á hverjum morgni án þess að vita hvort maður muni lifa daginn af. Svo hugsar maður um það sem maður getur gert til að hjálpa og það drífur mann áfram. Þessi hugsun, að ef þetta verður minn síðasti dagur, þá vil ég verja honum í það sem raunverulega skiptir mig máli.“

Kira var nýkomin af þingfundi þegar innrás Rússa hófst. „Leyniþjónustan sagði að við þyrftum annað hvort að yfirgefa landið eða búa okkur undir að berjast. Ég greip því byssu og sagðist ætla að berjast. Mér fannst ég ekki hafa neitt val,“ segir Kira.

„Ég bý í venjulegu húsi og ég á fjölskyldu. Þess vegna valdi ég byssuna. Ég hafði aldrei komið nálægt skotvopnum áður. Nú sex mánuðum síðar get ég sannarlega sagt að ég sé orðin mun betri skytta en ég var þá,“ segir Kira.

Hún segist telja það eitt af sínum brýnustu verkefnum, sem þingkona, að hlúa að öllu því fólki sem sé á flótta vegna stríðsins í Úkraínu.

„Við stöndum á ákveðnum krossgötum nú þegar hálft ár er liðið frá innrásinni. Nær allur opinber stuðningur er hugsaður til skemmri tíma en nú verðum við að hugsa þetta skipulega og til lengri tíma. Ég vil leggja mitt af mörkum svo að það megi verða.“

Kira vill að endingu koma á framfæri sérstökum þökkum til allra þeirra sem hafa rétt úkraínskum flóttamönnum hjálparhönd.

„Þið trúið ekki hvað þetta hefur mikla þýðingu fyrir okkur. En þetta er líka það sem stríð kennir manni. Maður getur ekki tekist á við það einn. Samstaðan er eina leiðin til að mæta harðstjórn og grimmd. Það er þessi samstaða sem við finnum svo sterkt í öllum þeim löndum sem deila sömu gildum og við,“ segir Kira Rudik.