Byrlun er ekki skilgreind sem sjálfstætt brot í refsilöggjöf og er því ekki sérstök skilgreining í kerfum lögreglu sem varðar byrlun lyfja. Af þessu leiðir að tölfræðiupplýsingar eru aðgengilegar um hve margir hafa verið handteknir eða ákærðir vegna gruns um byrlun á undanförnum árum, eða hve margar kærur hafa verið lagðar fram vegna byrlunar. Þetta kemur fram í svari Jóns Gunnarssonar, dómsmálaráðherra við fyrirspurn Lenyu Rún Taha Karim þingmanns Pírata.

Í svarinu segir að byrlun kunni að vera verknaðarþáttur í ýmsum tegundum afbrota, til að mynda nauðgunar og annarra kynferðisbrota, þar sem ekki sé um sjálfstætt brot að ræða, séu umbeðnar upplýsingar ekki aðgengilegar eins og fyrr segir.

Lenya spurði líka um verklag lögreglu þegar grunur um byrlun kviknar, meðal annars til að tryggja rannsóknarhagsmuni og varðveita sönnunargögn.

Í svari ráðherra segir að lögregluembættin fylgi þar til gerðum ráðleggingum rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði varðandi leit að lyfjum og eiturlyfjum þar sem grunur leikur á um byrlun. Í ráðleggingunum komi fram að taka þurfi blóð- og þvagsýni hjá brotaþola og áríðandi sé að sem stystur tími sé liðinn frá ætlaðri byrlun að sýnatöku.

Sýni tekin eins fljótt og auðið er

„Samkvæmt upplýsingum frá lögregluembættum á landinu er mikil áhersla lögð á að blóð- og þvagsýni séu tekin svo fljótt sem auðið er eftir að upp kemur grunur um byrlun. Þá leggur lögreglan áherslu á öflun annarra sönnunargagna sem upplýst geta um málsatvik, eins og að framkvæma vettvangsskoðun, afla upptaka úr eftirlitsmyndavélum, haldleggja gögn, svo sem glas eða flösku sem þolandi á að hafa drukkið úr, gögn sem gefa upplýsingar um ferðir þolanda og geranda, taka skýrslur af mögulegum vitnum, framkvæma húsleit hjá geranda, sé hann þekktur o.s.frv. Sé grunur uppi um að þolandi hafi orðið fyrir kynferðisbroti er, þegar við á, framkvæmd læknisskoðun á neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis,“ segir einnig í svari ráðherra.

Fram kemur að einhver embætti hafi sett sér sérstakar verklagsreglur um rannsókn mála er varða meinta byrlun og önnur hafa í hyggju að setja slíkar reglur.

Ný áætlun í smíðum um meðferð kynferðisbrota

Lenya spyr einnig hvernig ráðherra hyggist bregðast við fjölda frásagna sem sýni hvernig öryggi, heilsu og kynfrelsi fólks hafi verið stefnt í hættu með byrlun.

Dómsmálaráðherra svarar því til að hann hafi unnið markvisst að aðgerðum í baráttunni gegn kynferðislegu ofbeldi. Hann vísar til aðgerðateymis um markvissar aðgerðir sem sett hafi verið á laggirnar í maí 2020.

„Nú hefur ráðherra falið ríkislögreglustjóra að leiða starfshóp um forvarnir og vitundarvakningu gegn kynferðisbrotum og kynbundnu ofbeldi og áreiti. Skal hópurinn styðja við uppbyggingu á samstarfi lögreglu og samstarfsaðila gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Þá mun hópurinn standa fyrir almennri vitundarvakningu um kynbundið ofbeldi í samfélaginu. Hluti af því er að hvetja fólk til að gæta hvert að öðru í skemmtanalífinu, í því skyni að koma í veg fyrir óæskilega og ólöglega hegðun og aðstoða þá sem á því þurfa að halda,“ segir í svarinu.

Að lokum segist ráðherra ætla að hefja vinnu við gerð nýrrar aðgerðaáætlunar um meðferð kynferðisbrota, en núgildandi áætlun renni úr gildi við lok þessa árs.