„Tilfinningin er að þetta sé að aukast og verða meira og stærra vandamál en þetta var,“ segir Steinþór Helgi Arnsteinsson, meðeigandi Röntgen Bar, um byrlanir í miðbæ Reykjavíkur um helgar.

Greint var frá því í gær að lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hefðu borist fjórar tilkynningar vegna gruns um byrlun aðfaranótt sunnudags.

Tekin voru blóðsýni úr öllum þolendum og eru málin til rannsóknar hjá lögreglunni.

Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, talskona Stígamóta, sagði í kvöldfréttum RÚV og Stöðvar 2 í gær að það væri jákvætt að sýni hafi verið tekin úr þolendum og að lögreglan hafi tekið tilkynningarnar alvarlega.

Það hafi verið barátta að fá lögreglu og heilbrigðisyfirvöld til að taka slíkar tilkynningar alvarlega, meðal annars með því að láta taka sýni. Hún segir byrlanir algengari en margir halda.

Steinþór Helgi segist aðspurður sjálfur finna fyrir aukinni umræðu um byrlanir eftir kórónuveirufaraldurinn og undir það taka fleiri skemmtistaðaeigendur sem Fréttablaðið ræddi við en þeir segja umræðuna af hinu góða.

Þá séu skemmtistaðir með sérstakar verklagsreglur um það hvernig meðhöndla eigi byrlunarmál og þegar grunur leikur á að einstaklingum hafi verið byrlað.