Landsspítalinn bauðst of seint til að taka við rannsókn sýna úr leghálsskimunum og gæðakröfur Krabbameinsfélagsins voru ekki verið nægar. Tímapressa varð til þess að sýnin voru send úr landi.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu heilbrigðisráðherra vegna breytinga á fyrirkomulagi leghálmskimana.

Enginn tími gefist

Samið hafi verið við erlenda rannsóknarstofu um rannsóknir á leghálssýnum þar sem Landsspítalinn (LSH) hafi gefið til kynna að hann tæki ekki við rannsóknunum en svo síðar boðið fram krafta sína en með mörgum fyrirvörum. Því hafi ekki gefist tími til annars en að senda sýnin til Danmerkur, segir í skýrslunni sem unnin var af Haraldi Briem fyrrverandi sóttvarnarlækni og Alþingi óskaði eftir þann 2.mars sl.

Búast mátti við byrjunarörðugleikum

Löng bið hefur verið eftir niðurstöðum úr sýnarannsóknum eftir breytingar um áramótin, eða 2 til 3 mánuðir. Búast hefði þó mátt við byrjunarörðugleikum, segir í skýrslunni. Tafirnar eigi rót að rekja til vandamála í hugbúnaði og upplýsingakerfum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) sem tók við verkefninu.

Kostnaður

Gagnrýnivert sé þó hversu „stirðlegt og langvinnt yfirtökuferli rannsókna á leghálssýnum var.“ Á endanum hafi þó verið tryggt að rannsóknarstofa sjúkrahússins í Hvidovre í Danmörku tæki yfir rannsóknir á skimunarsýnum frá áramótunum og kostnaðurinn hafi verið metinn lægri en hjá LSH og Karolinska sjúkrahúsinu í Svíþjóð.

Gæðakröfur

Um gæðakröfur til rannsóknarstofa sem stunda skimanir segir að alvarleg atvik í starfsemi Leitarstöðvar KÍ og þáttaskil í starfsemi hennar, sem lauk áður en samningstími hennar rann út, varpi ljósi á „hversu viðkvæmar litlar rannsóknarstofur eru.“ Krabbameinsfélagið þurfti í fyrrahaust að endurskoða um fimm þúsund sýni þar sem í ljós kom að greiningar voru rangar.

Ekki áhrif á sérfræðiþekkingu innanlands

Þá segir vandséð að flutningur rannsókna á leghálssýnum úr landi hafi áhrif á aðgengi sérfræðinga innan heilbrigðiskerfisins að niðurstöðum rannsóknanna eftir að þær berast, ef skimunarmiðstöð HH starfar „eðlilega“.

Einnig að áhrif á sérfræðiþekkingu hérlendis við þessar breytingar séu lítil.

Landlæknir mat í vor Landsspítalann að mestu í stakk búinn til að reka rannsóknarstofu fyrir leghálssýnin. Í skýrslunni segir að nú þurfi nýtt kostnaðarmat LSH að berast.

Fjórtán vikur eru síðan óskað var eftir skýrslu um yfirfærslu þjónustunnar til Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins (HH) og Danmerkur.